Á mánudaginn sagði Pútín að árásirnar væru hefnd fyrir sprenginguna á Krech-brúnni á laugardaginn. Hann hefur sakað Úkraínumenn um að hafa staðið á bak við hana.
Alexander Høgsberg Tetzlaff, majór og hernaðarsérfræðingur við miðstöð hernaðarrannsókna við Kaupmannahafnarháskóla, sagði í samtali við TV2 að árásirnar sýni að Pútín sé undir þrýstingi innan stjórnar sinnar. „Haukarnir í ríkisstjórn hans, sem krefjast öflugra viðbragða við árásinni á brúna um helgina, þrýsta á hann. Árásirnar eru tilraun til að gera þá ánægða,“ sagði Tetzlaff.
Hann sagðist ekki vera hissa á að Rússar hafi skotið á skotmörk langt inni í landi, eins langt í vestur og Lviv: „Í raun geta Rússar sent stýriflaugar hring um jörðina en spurningin er hversu margar þeir eiga eftir. Þess vegna á ekki að nota þær til að skjóta á önnur skotmörk en hernaðarleg til að koma í veg fyrir að Úkraínumenn sæki meira fram.“