Hluta af svarinu er líklega að finna í tilnefningu Sergey Surovkin sem æðsta yfirmanns heraflans í Úkraínu.
„Heimsendahershöfðinginn“ eins og hermenn hans kalla hann er þekktur sem miskunnarlaus herforingi sem ber meðal annars mesta ábyrgð á að borgin Aleppo í Sýrlandi var jöfnuð við jörðu.
Þá var ekkert tillit tekið til mannfalls og hugsanlega vonast Pútín til að miskunnarleysi Surovkin muni valda ótta meðal úkraínsks almennings.
„Ég er ekki hissa á því sem gerðist þennan morgun í Kyiv. Surovkin er algjörlega miskunnarlaus og ber enga virðingu fyrir mannslífum. Ég óttast að hendur hans verði algjörlega smurðar inn í úkraínskt blóð,“ sagði einn af fyrrum félögum Surovkin í rússneska varnarmálaráðuneytinu í samtali við The Guardian.
En stýriflaugaárásirnar á Úkraínu voru ekki eina merkið um að stríðið sé að stigmagnast. Aleksandr Lukashenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, sagði í vikunni að nú setji Hvíta-Rússland og Rússland sameiginlega viðbragðsherdeild á laggirnar til að takast á við ógnir. Hann sagði að Úkraínumenn væru ekki aðeins að íhuga að gera árás á Hvíta-Rússland, þeir væru að undirbúa árás.
Það virðist því sem Pútín hafi loks tekist að fá hann til að taka þátt í stríðinu. Hvítrússneski herinn er ekki sérstaklega öflugur en hins vegar eru landamæri Hvíta-Rússlands og Úkraínu aðeins um 1.000 km frá Kyiv.