fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Eyþór spyr hvenær fyrsta hóp-skotárásin verði framin hér á landi – Eftir 5, 10 eða 15 ár?

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 12. október 2022 07:45

Sjálfvirk AR-15 byssa.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyþór Víðisson, löggæslu- og öryggissérfræðingur, skrifar opið bréf til Alþingis í Fréttablaðinu í dag þar sem hann veltir því upp hversu langt sé í að fyrsta hóp-skotárásin verði framin hér á landi. „Það styttist í fyrstu hóp-skotárásina hér á landi. 5, 10 eða 15 ár? Ég veit það ekki, en öll rök benda til þess að það styttist,“ segir hann.

Í bréfinu bendir hann á að notkun vopna hafi aukist hér á landi á síðustu árum. Hnífaburður sé almennur í ákveðnum hópum, skammbyssum hafi fjölgað mikið og nú sé lögreglan farin að finna hálf- og alsjálfvirk skotvopn þegar hún framkvæmir húsleitir. Einnig séu dæmi um að slík vopn séu munduð í einhverjum tilfellum.

„Lögregluyfirvöld hafa miklar áhyggjur enda eru lögreglumenn í miðju þessarar þróunar og stíga inn í aðstæður sem sífellt verða varasamari. Sú staðreynd að hér á landi skulu yfir höfuð vera til hálfsjálfvirk og sjálfvirk vopn er fáránleg. Hvað hefur herlaus þjóð með ríka veiðihefð að gera við slík vopn? Slík vopn eru hönnuð til að drepa fólk á skilvirkan hátt en ekki villt dýr í náttúrunni og við þurfum þau ekki,“ segir hann og hvetur þingmenn til að grípa til aðgerða.

Hann bendir á að í vopnalögum sé ákvæði um að lögreglustjóri geti heimilað einstaklingi að eiga og varðveita skotvopn sem hefur ótvírætt söfnunargildi. Einnig megi takmarka magn skotfæra fyrir slík vopn, enda hafi vopnin ótvírætt söfnunargildi. Undir þetta falla sjálfvirk vopn, oft kölluð hríðskotabyssur.

„Mér finnst þetta ákvæði fáránlegt og mögulega stórhættulegt. Fíkniefni eru ólögleg og það má því ekki safna þeim. Barnaklám er ólöglegt og má ekki safna því. Listinn er lengri. En vopn sem hönnuð eru til að drepa fjölda fólks á mjög skömmum tíma? Jú, það má safna þeim. Af hverju? Af því að þau hafa tilfinningagildi fyrir safnarann? Getur einhver rökstutt þetta?“

Hann segir að ekki skipti máli hver niðurstaða lögreglurannsóknar á meintu hryðjuverkamáli verði, allir sem fylgist með fréttum finni að þjóðfélagsbreytingar séu að verða hvað varðar vopnaeign og vopnanotkun hér á landi.

„Viljum við að íslenskir vinnustaðir fari að kenna starfsfólki sínu að þekkja skothvelli úr fjarlægð til að hægt sé að bregðast tímanlega við? Það styttist í það að óbreyttu. Flestar skotárásir af þessu tagi taka u.þ.b. 90-180 sekúndur og tala fallinna á þeim tíma getur skipt tugum á stórum vinnustað eða á atburði. Byssusafnarar eiga sumir hundruð vopna, mörg þannig að þau geta valdið skelfilegum skaða á mjög skömmum tíma. Það má ekki gleyma að byssusafnarar eru venjulegar manneskjur. Byssusafnari getur lent í fjárhagsörðugleikum, hann eða hún getur þróað með sér fíknivanda, geðræn vandamál, heilabilanir eða annað, sem veldur því að viðkomandi ætti ekki að vera með vopnabúr í sinni vörslu. Hefðbundið eftirlit með söfnurum, leyfisveitingar, vottorð og annað slíkt er ekki nóg,“ segir hann og rifjar upp nokkur dæmi um skotmál.

„Í þessu samhengi er oft talað um hversu örugglega byssusafnarar geyma vopn sín. Ég hef unnið sem sérfræðingur í öryggismálum í áratugi og ég get sagt það með mikilli vissu að það er ekkert rými svo öruggt að ekki sé hægt að brjótast inn í það. Svo er líka hægt að neyða fólk til að opna læst rými, nú eða gabba það. Það er gott að rifja upp þá reglu að besta leiðin til að stýra áhættu er að eyða henni. Að þessi vopn skuli vera til hér á landi er óþarfi. Það styttist í fyrstu hóp-skotárásina hér á landi. 5, 10 eða 15 ár? Ég veit það ekki, en öll rök benda til þess að það styttist. Þegar slík árás verður gerð þá skiptir öllu máli að hún sé ekki gerð með sjálfvirkum vopnum,“ segir hann og bætir við að hann vilji frekar sjá slíka árás gerða með hefðbundnum veiðiriffli en sjálfvirki byssu sem skýtur 45 kúlum á mínútu.

Hann skorar síðan á þingmenn að breyta vopnalögum og banna byssusöfnun.

Hér er hægt að lesa alla grein Eyþórs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Elín: „Ég er þreytt á að finnast ég þurfa að réttlæta og verja starfið mitt”

Elín: „Ég er þreytt á að finnast ég þurfa að réttlæta og verja starfið mitt”
Fréttir
Í gær

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad
Fréttir
Í gær

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi
Fréttir
Í gær

Árásin í Svíþjóð: „Þið ættuð að yfirgefa Evrópu“ – Sýrlendingar meðal þeirra sem létust

Árásin í Svíþjóð: „Þið ættuð að yfirgefa Evrópu“ – Sýrlendingar meðal þeirra sem létust
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“