Danska ríkisútvarpið hefur eftir Flemming Splidsboel, sérfræðingi hjá Dansk Institut for Internationale Studier, að árásirnar í gær líkist refsiaðgerð. Hann sagði þó öruggt að árásirnar séu merki um að nú verði átökin enn harðari en áður.
„Ég túlka þetta sem stigmögnun stríðsins, Annað hvort vegna þess sem gerðist á laugardaginn á Krím-brúnni eða stigmögnum sem á að reyna að fá Úkraínumenn til að gefast upp að lokum,“ sagði hann.
Áður beindust árásir Rússa aðallega að hernaðarlegum skotmörkum en í gær voru það meðal annars leikvöllur og fjölfarin gatnamót sem voru meðal skotmarkanna í Kyiv.
Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir þá voru það stýriflaugar sem var skotið á Kyiv og hinar borgirnar. Þær voru líklega forritaðar til að lenda í íbúðarhverfum í Kyiv og hinum borgunum.
Splidsboel sagði að nú geti Úkraínumenn búið sig undir að stríðið sé komið á nýtt stig þar sem meira verði um sprengjuárásir á miðbæi borganna, ekki bara í fremstu víglínu.