fbpx
Laugardagur 16.nóvember 2024
Fréttir

Heiðurskonsúll Rússlands hjá Kaupfélagi Skagfirðinga – „Ég veit þá hvert ég er ekki að fara með fjölskylduna að fá mér að snæða“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 11. október 2022 10:09

Ólafur Ágúst, heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvað eiga veitingastaðirnir Metro, American Style, Aktu Taktu, Hamborgarafabrikkan, Shake & Pizza og Blackbox og afþreyingarstaðirnnir Keiluhöllin og trampólíngarðurinn Rush sameiginlegt?“ spyr Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

„Jú, þeir eru nú allir í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, þar sem einn af æðstu stjórnendum ber nafnbótina heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi,“ segir Ólafur á Facebooksíðu sinni. „Hann sagðist í viðtölum síðastliðið vor „ekki einu sinni [hafa] hugleitt það“ að segja af sér þessari heiðursnafnbót eftir að ríkið sem veitti honum hana hafði orðið uppvíst að skelfilegum stríðsglæpum í Úkraínu. Ég veit þá hvert ég er ekki að fara með fjölskylduna að fá mér að snæða,“ segir Ólafur.

Örfáir dagar eru síðan greint var frá því að KS og Hái Klettur, sem er í eigu Árna Péturs Jónssonar, fyrr­ver­andi for­stjóra Skelj­ungs, hafi keypt Gleðip­inna, sem halda utan um rekst­ur áðurnefndra veitingastaða.

Umræddur heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi er Ólafur Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS.

Þá rifjar Ólafur Stephensen upp að „þegar samstarfsaðili KS var sakaður um kynferðisbrot í byrjun árs, brá kaupfélagið skjótt við og hætti samstarfinu. Stríðglæpir og fjöldamorð framkalla ekki viðlíka viðbrögð“ og deilir fréttinni „Kaupfélag Skagfirðinga hættir samstarfi við Arnar Grant“. Þar var fjallað um að Kaupfélag Skagfirðinga ákvað í janúar að taka próteindrykkinn Teyg úr framleiðslu og sölu vegna frásagnar Vítalíu Lazarevu í hlaðvarpinu Eigin Konur.

Fréttablaðið ræddi við Ólaf Ágúst í apríl í tengslum við sölu samninga MS og KS við rússneska aðila um framleiðslu og sölu á Ísey skyri í Rússlandi. Þá sagðist hann ekki hafa hugleitt að segja af sér heiðursnafnbótinni. „Það er ekki brjálað að gera í þessu. Þetta snýst um að aðstoða almenna borgara, miðla menningu og aðstoða fólk í neyð. Til dæmis flóttafólk eða túrista. Eins og staðan er núna eru engir að koma,“ sagði hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt