Alexander Tetzlaff, majór og hernaðarsérfræðingur hjá miðstöð hernaðarrannsókna við Kaupmannahafnarháskóla, segir að sprengingin geri Rússum erfitt fyrir á mörgum sviðum og erfiðara fyrir við að ná árangri á suðurhluta vígvallarins. Í samtali við TV2 sagðist hann telja að með árásinni á brúna hafi verið reynt að hafa áhrif á vilja Rússa til að standa í stríði í Úkraínu. Sprengingin skapi bæði ótta og óöryggi.
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, hefur sakað úkraínskar sérsveitir um verknaðinn og í gærmorgun kom fyrsta svar Rússa þegar flugskeytum rigndi yfir Kyiv og fleiri úkraínskar borgir.
Tetzlaff sagði nærtækt að halda að Úkraínumenn hafi gert árásina: „Þetta er fullkomin árás sem var tekin upp og skráð. Öll heimsbyggðin talar um sprenginguna og Rússar hljóta að hugsa: „Hvar hæfa þeir okkur næst?“