fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Einn sterkasti skákmaður heims segir skák Niemann gegn Hjörvari Steini afar grunsamlega: „Þessi skák er annað hvort tefld af snillingi eða það er eitthvað undarlegt á seyði“

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 1. október 2022 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn besti skákmaður heims, bandaríski ofurstórmeistarinn Fabiano Caruana, telur að skák stórmeistarans Hjörvars Steins Grétarssonar gegn hinum umdeilda bandaríska stórmeistara Hans Niemann sé afar grunsamleg og sá möguleiki sé fyrir hendi að Niemann hafi haft rangt við gegn Íslendingnum. Niemann vann öruggan sigur en taflmennska hans í skákinni, sem tefld var á alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu í apríl, er nánast að öllu í leyti í takt við uppástungur sterkustu skákforrita sem í boði eru.

Snilligáfa eða svindl

„Þessi skák er annað hvort tefld af snillingi eða það er eitthvað undarlegt á seyði. Það er annað hvort,“ segir Caruana í hlaðvarpsþættinum C-squared þar sem farið er yfir nokkrar eldri skákir Niemann sem taldar eru grunsamlegar.

Um fátt hefur verið meira rætt undanfarnar vikur en ásakanir heimsmeistarans Magnus Carlsen um að bandaríski stórmeistarinn Hans Niemann sé svindlari og hafi mögulega haft rangt við í viðureign þeirra á Sinquefield-ofurmótinu í St. Louis.

Eins og frægt varð vann Niemann skákina sem varð til þess að Carlsen hætti í mótinu og ásakanir um svindl Bandaríkjamannsins fóru á flug. Carlsen hellti svo olíu á eldinn á næsta ofurmóti þar sem að hann mætti Niemann að nýju. Eftir einn leik gafst Carlsen einfaldlega upp og gaf þar með skýrt til kynna að hann hefði ekki í hyggju að tefla við Bandaríkjamanninn.

Nokkrum dögum síðar gaf Carlsen út formlega yfirlýsingu á Twitter-síðu sinni þar sem að hann meðal annars sakaði Niemann um að hafa svindlað oftar en hann hefur viðurkennt en bandaríski stórmeistarinn hefur áður játað að hafa svindlað á barnsaldri í tvö skipti á netinu.

Síðan hefur málið kraumað á samfélagsmiðlum og hefur ferill Niemann hingað til verið rannsakaður gaumgæfilega. Hann hefur á skömmum tíma tekið gríðarlegum framförum og skipað sér í hóp sterkustu skákmanna heims.  Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur síðustu daga stigið fram og talið sig hafa fundið vísbendingar varðandi sekt eða sakleysi Niemann.

Sérfræðingurinn telur Niemann ekki hafa svindlað

Einn fremsti sérfræðingur í að greina tölvusvindl í skák, Ken Regan, hefur skoðað feril Bandaríkjamannsins gaumgæfilega. Regan hefur þróað sína eigin aðferð til að greina slíkt., sem er sérstaklega viðurkennd af FIDE  – alþjóðaskáksambandinu, og hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að Niemann hafi svindlað. Bandaríkjamaðurinn tefli vel en ekki óaðfinnanlega.

Fabiano Caruana, einn besti skákmaður heims, segist hins vegar taka orðum Regan með fyrirvara. Hann viti sjálfur um sterkan skákmann sem staðfest er að hafi svindlað en sá hafði verið sýknaður af þeim ásökunum með kerfi Regan.

Aðferðin sé góð við að handsama svindlara sem herma hvern einasta leik eftir tölvunum en dugir ekki til að ná snjöllum svindlurum sem nota sér tölvurnar aðeins endrum og eins til að aðstoða sig í hverri skák. Ef Niemann væri sekur er óumdeilt að hann væri heimsins snjallasti svindlari og að hann hefði vit á því að nýta sér hjálp tölvunnar í völdum skákum og augnablikum.

Í áðurnefndu hlaðvarpi fjallar Caruana um skák Niemann gegn Hjörvari Steini á Reykjavík Open. Ásamt þáttastjórnandanum og stórmeistaranum Christian Chirila fer hann yfir alla leiki skákarinnar og metur hversu eðlilegir leikirnir séu fyrir skákmann af holdi og blóði. Niðurstaða hans er einfaldlega sú að skákin sé eiginlega of vel tefld af Niemann og því afar grunsamleg.

Hér má sjá myndbandið af greiningu Caruana – Hún hefst eftir 1:51:12

Skelþunnur og notaði lítinn tíma

Hjörvar Steinn, sem er sterkasti skákmaður Íslands í dag, segist hafa fylgst vel greiningu Caruana sem og auðvitað málinu í heild sinni. Hann hafi þó ekki grunað Bandaríkjamanninn um græsku á meðan skákinni stóð.

„Nei, ég grunaði hann ekki um svindl á meðan skákinni stóð. Hann er það sterkur stórmeistari að maður treystir því einfaldlega að hann leiki öflugum leikjum. Hann tefldi þessa skák ótrúlega vel en það var eitthvað sem ég bjóst alveg eins við fyrir skákina,“ segir Hjörvar Steinn.

Það hafi þó truflað hann hversu hratt Niemann lék og ekki síður að hann hafði greinilega farið út að skemmta sér kvöldið áður. „Það var mjög mikil áfengislykt af honum og ég man hvað það var óþægilegt hvað hann notaði lítinn tíma. Hann negldi yfirleitt leikjunum strax út sem lét mann óttast að hann væri búinn að rannsaka stöðuna heima hjá sér og ég væri því að labba í einhverja gildru,“ segir stórmeistarinn..

Að hluta til hafi það verið raunin. „Hann kunni byrjunina greinilega upp á tíu og leiðbeindi mér eftir skákina hvar ég hefði farið út af sporinu.“

Vandamálið verði tekið föstum tökum

Þá hafi hann fengið svipaða upplifun og Carlsen, að Niemann væri ekkert að einbeita sér að skákinni. „Hann labbaði mikið frá borðinu og virkaði eins og hann væri ekki með hugann við skákina. Að sama skapi hef ég sjaldan upplifa að vera jarðaður svona, þrátt fyrir að hafa teflt við marga af sterkustu skákmönnum heims. Hann lék ofboðslega öflugum leikjum og setti mikla pressu á mig,“ segir Hjörvar.

Hann hefur fylgst náið með málinu en segist varla vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga varðandi það.

„Ég vil trúa því að ferðalag Niemann frá hálfgerði meðalmennsku og upp í hóp sterkustu skákmanna heims sé fær ef menn leggja hart að sér og hann hefur sjálfur haldið fram. Að sama skapi þá er mikil tortryggni í hans garð og það fyrri játningar um svindl skemma náttúrulega orðspor hans mikið. Mér finnst ómögulegt að segja til um hvernig þetta mál fer en ég vona bara að þetta verði til þess að þetta sívaxandi vandamál, svindl á skákmótum, verði tekið föstum tökum áður en skákin ber skaða af,“ segir Hjörvar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt