Í fréttatilkynningu frá Säpo segir að grunur hafi leikið á að skemmdarverk hafi verið unnin á gasleiðslunum og það hafi nú verið staðfest.
„Eftir vettvangsrannsókn getur Säpo staðfest að sprengjur sprungu við Nord Stream 1 og 2 í sænskri efnahagslögsögu. Þetta olli miklu tjóni á gasleiðslunum,“ segir í fréttatilkynningunni.
Rannsókn Säpo hefur styrkt grunsemdir um að um gróft skemmdarverk hafi verið að ræða. Vettvangsrannsókninni er lokið og sænsk yfirvöld hafa því aflétt lokunum á svæðunum. Enn á eftir að rannsaka sýni sem voru tekin.
Säpo segist hafa lagt hald á eitthvað tengt málinu en vill ekki upplýsa hvað það er.
Það var 27. september sem tilkynnt var um leka úr gasleiðslunum, sem liggja frá Rússlandi til Þýskalands. Í heildina var um fjóra leka að ræða. Margir telja að Rússar hafi staðið á bak við skemmdarverkin en þeir neita því.