Þar sækja úkraínskar hersveitir fram í austurhluta landsins og náðu bænum Lyman á sitt vald um helgina sem og fleiri litlum bæjum í Kherson. Það er mikið áfall fyrir Rússa að hafa misst Lyman en bærinn var innlimaður í Rússland á föstudaginn þegar Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, tilkynnti um innlimun fjögurra úkraínskra héraða í Rússland. Lyman er hliðið að norðanverðu Donbas og höfðu rússnesku hermennirnir fengið fyrirmæli um að berjast þar til yfir lyki. Samt sem áður gafst fjöldi þeirra upp fyrir úkraínsku hermönnunum.
Þetta sagði Kaarsbo í samtali við TV2. Hann sagði að rússnesku hermennirnir hafi verið umkringdir, hægt og rólega, og hafi mannfallið í þeirra röðum verið mikið. „Það er athyglisvert að þeir komu ekki með neitt mótsvar og að þeir hafi lagt svo mikið undir við að verja þennan bæ,“ sagði hann.
Kaarsbo sagði að hlutirnir gerist hratt núna og Rússar hafi ekki getu til að mæta sókn Úkraínumanna. Þá skorti skriðdreka, brynvarin ökutæki og birgðalínur þeirra séu mjög brothættar og því hafi Úkraínumenn getað farið illa með þá.
Úkraínumenn hafa sótt fram af krafti við Kherson en það geta þeir að sögn Kaarsbo vegna þess að þeir hafa veikt birgðalínur Rússa yfir Dnipro ána með langdrægum HIMARS-flugskeytum. „Rússar eru með marga hermenn en þeir eru án birgða og þeir eru einfaldlega þreyttir,“ sagði hann.
Hann sagðist ekki telja líklegt að nýjar rússneskar hersveitir geti breytt stöðunni. Mannfallið hafi verið mikið síðustu vikuna eða rúmlega 500 rússneskir hermenn á dag. Það hafi komið í ljós að nýju hermennirnir séu illa þjálfaðir og illa útbúnir. „Þetta er þvi miður það sem á hernaðarmáli kallast hakkavél,“ sagði hann.