Þessu til viðbótar hafa mörg þúsund manns mótmælt herkvaðningunni á götum borga og bæja í Rússlandi og tugir þúsunda, ef ekki hundruð, hafa flúið land. Það hefur runnið upp fyrir mörgum að hin „sérstaka hernaðaraðgerð“ er ekkert annað en stríð sem hefur ekki gengið eins fyrir sig og rússneskir ráðamenn áttu von á en þeir reiknuðu með að sigur myndi vinnast á Úkraínumönnum á skömmum tíma.
Á skilaboðaþjónustunni Telegram, sem er vinsæl meðal ungra Rússa, eru margir hópar þar sem fólk veitir ráð og deilir reynslusögum sínum af hvernig sé hægt að komast úr landi og hver staðan sé við ákveðnar landamærastöðvar. Einnig eru hópar þar sem veitt eru ráð um hvernig sé hægt að komast hjá herkvaðningu eða sé hægt að flýja.
Á vefsíðunni helpdesk.media, sem var stofnuð af blaðamanni, sitja sjálfboðaliðar fyrir svörum allan sólarhringinn og svara spurningum hvernig sé hægt að komast úr landi, leynast fyrir lögreglunni og komast hjá herkvaðningu og hvernig sé hægt að millifæra peninga.
Einnig eru síður komnar fram á sjónarsviðið þar sem Rússar, sem búa erlendis, segja þeim sem eru nýfarnir frá Rússlandi, hvar þeir geti fengið gistingu eða veita ráð um praktíska hluti á borð við að finna húsnæði eða opna bankareikning.
Þeim sem ekki vilja yfirgefa Rússland standa einnig ráðleggingar til boða og blómlegur iðnaður er sprotinn upp við að búa til og selja fölsuð skilríki og skjöl. Einnig er mikið um ráðleggingar um hvernig sé best að slasa sjálfan sig til að sleppa við herkvaðningu. Til dæmis hefur myndband verið í dreifingu þar sem ungur maður biður vin sinn um að lemja sig með hamri í handlegginn til að brjóta hann en með því vonast hann til að sleppa við herþjónustu.