Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson birti í kvöld yfirlýsingu vegna ásakana í hans garð um kynferðislegt ofbeldi. Á dögunum steig Vítalía Lazareva fram í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur og greindi frá meintum kynferðisbrotum sem hún varð fyrir í sumarbústaðaferð af hálfu þáverandi ástmanns síns, Arnars Grants og þriggja áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi – Ara Edwald, Hreggviði Jónssyni og Þórði Má Jóhannessyni. Þeir hafa allir tilkynnt um að þeir hyggist stíga til hliðar í störfum sínum vegna málsins.
Vítalía nefndi einnig að þjóðþekktur maður hefði beitt hana kynferðis ofbeldi í kjölfar þess að viðkomandi hafi gengið inn á hana og Arnar í ástarleik á hótelherbergi. Í kjölfarið hafi hún verið neydd til að veita manninum kynferðislegan greiða.
„Ég horfi framan í hann þegar vinur hans er að fara niður á mig og ég á að vera að fara niður á hann. Ég horfi í augun á honum, ég er farin að gráta og segi honum að ég vil þetta ekki. Hann segir við mig að þetta verði allt í lagi því hann er með mér,“ sagði Vítalía um atvikið á hótelherberginu.
Sá maður á að vera Logi Bergmann en Vítalía hafði áður birt myndir á Instagram-síðu sinni af samskiptum sínum við fjölmiðlamaðinn á Messenger. Í dag var Logi svo nafngreindur í fjölmiðlum í tengslum við málið. Í kjölfarið tilkynnti fjölmiðlamaður um að hann hyggðist fara í ótímabundið frí frá störfum sínum á útvarpstöðinni K100.
„Ég er saklaus af þeim sökum sem á mig hafa verið bornar undanfarna daga. Ég hef alla mína ævi haft andstyggð á hvers kyns ofbeldi, staðið með fórnarlömbum þess og stutt baráttu þeirra í gegnum tíðina. Ekkert er fjær mér en að þröngva annarri manneskju til kynferðislegra athafna. Ég er hins vegar sekur um að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem ég átti ekki að fara inn í. Það var taktlaust og heimskulegt og ég hef þegar tjáð viðkomandi að ég taki ábyrgð á því og mér þyki það leitt,“ segir Logi í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni.
Segist fjölmiðlamaðurinn ekki ætla að tjá sig meira um málið.
Sjá einnig: Þórður lætur af störfum og Logi ætlar í frí – „Ég hef verið betri“
Færsla Loga í heild sinni: