Á netinu gengur þessi sparnaðaraðferð undir heitinu „365 daga jólaáskorunin“. Hugmyndin er að maður leggi ákveðna upphæð til hliðar daglega til að safna fyrir næstu jól. Þetta gengur þannig fyrir sig að fyrsta dag mánaðarins leggur maður ákveðna upphæð fyrir, til dæmis 20 krónur. Daginn eftir eru það 40 krónur, þriðja daginn 60 krónur og svo koll af kolli, upphæðin hækkar sem sagt um 20 krónur á dag.
Ef miðað er við 30 daga að meðaltali í mánuði þá safnast 9.300 krónur í hverjum mánuði ef hækkunin á milli daga er 20 krónur. Það gera rúmlega 111.000 krónur á ári og munar nú um minna. Það er auðvitað hægt að nota hærri eða lægri upphæðir, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.
Í umræðum um þessa aðferð á samfélagsmiðlum segja sumir að þeir fari öfuga leið að þessu og byrji á að leggja hæstu upphæðina fyrir á fyrsta degi mánaðarins og lækki hana síðan eftir því sem líður á mánuðinn og leggi 20 krónur fyrir á síðasta degi mánaðarins. Þetta getur hjálpað sumum því þá finnst þeim ekki eins erfitt að ná endum saman í lok mánaðarins.