Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur eftir að hafa í tvígang verið sakaður um ritstuld, annars vegar vegna nýrrar bókar sinnar um landnámið – Eyjan hans Ingólfs, og hins vegar fyrir ritstuld við ritun rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið.
Ásgeir hefur neitað sök í báðum málum og hefur enn fremur furðað sig nokkuð á seinna málinu – því er varðar aðkomu hans að ritun rannsóknarskýrslunnar. En hann birti í dag gögn á Facebook-síðu sinni sem hann segir sanna sakleysi sitt.
„Það hefur stundum verið haft á orði að ef ásakanir eru endurteknar nægjanlega oft festist þær – þó þær séu rangar. Sú skal ekki verða raunin hvað varðar ásakanir um að ég hafi gerst sekur um ritstuld í tengslum við ritun Rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna – fyrir um 8 árum síðan.“
Ásgeir hefur nú fengið greinargerð sem skrifstofa Alþingis vann um málið í nóvember árið 2015 sem svar við ásökunum Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings um að kaflar skýrslunnar væru byggðir á hugverki hans án þess að heimilda væri réttilega getið. Í greinargerðinni kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að ekki hafi verið um vísvitandi tilraun til ritstuldar að ræða.
„Annars getur hver myndað sér sína eigin skoðun eftir lestur greinargerðarinnar. Það sem skiptir mig máli er að greinargerðin staðfestir algerlega að ég var ekki aðili að málinu og raunar alls ókunnugur því fyrr en ég var tengdur því á forsíðu dagblaðs nú rétt fyrir jólin.“
Ásgeir bendir á að þriggja manna nefnd hafi borið ábyrgð á skýrslunni. Hann hafi ekki verið í þeirri nefnd og því aldrei farið með ritstjórnarlega ábyrgð. Ásökun Árna um ritstuld snúist að mestu um viðauka við skýrsluna sem sé höfundamerktur tveimur aðilum – hvorugur þeirra er Ásgeir.
Skýrslan hafi verið hátt í tvö þúsund blaðsíður og rituð af 53 starfsmönnum og verktökum. Ásgeir hafi verið einn þeirra þó að ekkert efni sé sérstaklega höfundamerkt honum. Furðar Ásgeir sig því á því að hans nafn hafi verið dregið fram á forsíðu Fréttablaðsins í desember í tengslum við meintan ritstuld hans.
„Það er því umhugsunarefni af hverju mitt nafn – eitt af 53 öðrum nöfnum – er dregið fram sérstaklega í fréttaflutningi af málinu.
Ég kom að ritun þessarar skýrslu 1-2 árum eftir að Árni H. Kristjánsson hætti samstarfi við nefndina. Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi séð efni frá honum þá mánuði sem ég vann sem verktaki fyrir nefndina, eða yfir höfuð að ég hafi vitað að hann væri til.
Greinargerð Alþingis er afdráttarlaus með það „að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til þess að ætla að einstakir rannsóknarnefndarmenn hafi vitað eða mátt vita um framangreind vinnubrögð og þá atburðaröð sem lýst hefur verið.“
Telur Ásgeir fréttaflutning Fréttablaðsins bæði óvandaðan og óboðlegan.
„Ég verð að segja það frá hjartanu – í ljósi þess sem ég hef hér rakið finnst mér finnst fréttaflutningur af þessu máli og sakbending mín sem ritþjófs í tveimur forsíðufréttum sama dagblaðs vegna starfa minna fyrir Rannsóknarnefndina óvandaður og óboðlegur.
Allt um það – þessu máli ætti að vera lokið hvað mig snertir. Engar forsendur eru til að bendla mig við ritstuld í tengslum við Rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna.“
Með færslu sinni birtir Ásgeir mynd af forsíðu Fréttablaðsins þar sem sagnfræðingurinn Árni H. Kristjánsson nafngreindi Ásgeir sem einn af þeim sem frömdu ritstuld við ritun rannsóknarskýrslunnar. Eins má þar finna greinargerð skrifstofu Alþingis um málið frá 2015 sem Ásgeir birtir með leyfi Alþingis.
Í greinargerðinni er komist að þeirri niðurstöðu að í skýrslunni megi finna textabrot sem eigi sér samsvörun í handriti sem Árni hafi látið rannsóknarnefnd í té áramótin 2011-2012. Þá hafi litið út fyrir að Árni myndi starfa fyrir nefndina. Þegar það samstarf var enn við líði var umræddur kafli ritaður og þegar Árni lét af störfum og bannaði frekari not á efni sínu var kaflanum breytt, en sú vinna reyndist snúin. Í niðurstöðukafla segir meðal annars eftirfarandi, en rétt er að benda á að umræddur starfsmaður er ekki Ásgeir Jónsson:
„Það er jafnframt mat skrifstofunnar að ekki hafi staðið vilji til þess af hálfu starfsmanns rannsóknarnefndarinnar að misnota þann aðgang sem hann hafði að handriti Árna og að hann hafi leitast við að fjarlægja allt það efni sem sótt hafði verið í handritið.
Loks er það mat skrifstofunnar að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að ætla að einstakir rannsóknarnefndarmenn hafi vitað eða mátt vita um framangreind vinnubrögð og þá atburðaröð sem lýst hefur verið.
Það er því niðurstaða skrifstofunnar að líta verði á þau fáu tilvik sem hafa samsvörun í handriti Árna H. Kristjánssonar og skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem óviljaverk en ekki vísvitandi tilraun til ritstuldar. Skrifstofan harmar jafnframt að mál skuli hafa æxlast með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.“