fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Hannes Hólmsteinn tjáir sig um hvað hann og Davíð greindi á – „Ég hef hvergi sagt þetta áður“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 12. janúar 2022 10:00

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands segist ekki alltaf hafa verið sammála Davíð Oddssyni þegar kemur að Baugsmálinu og málefnum svokallaðra auðmanna almennt. Hannes er gestur Sölva Tryggvasonar í áður óbirtum Podcast þætti hans.

Spurður út í Baugsmálið og Davíð Oddsson segir Hannes:

„Kannski var það eitt af málunum þar sem ég var ekki alltaf sammála Davíð. Ég hef hvergi sagt þetta áður, en það sem hann deildi á mig og ég deildi á hann var að honum fannst ég of hlynntur ríka fólkinu og þá getur þú sagt þér það sjálfur að ég hafði meiri samúð með mönnum eins og Jóni Ásgeiri heldur en Davíð. Svo skammaði ég Davíð stundum fyrir að gefa ekki alveg nóg af sér gagnvart fjölmiðlamönnum eins og þér til dæmis. Hann dró sig meira í skel en ég hefði viljað af því að hann er það skemmtilegur og góður í að segja frá.,” segir Hannes sem segist jafnframt hafa glaðst yfir ummælum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í þætti Sölva síðasta vor.

„Ég var ánægður með að Jón Ásgeir hafi bent á það í þættinum hjá þér að ég hafi skrifað gott yfirlit um það hvað útlendu bankarnir og stjórnvöld erlendis hirtu eignir á smánarverði af bönkunum.”

Mótmælafundur endaði á Holtinu með Davíð og Kjartani

Hannes segir í þættinum sögur af kvöldverðum sínum með Davíð og Kjartani Gunnarssyni á Hótel Holti á tveimur ólíkum tímabilum.

„Davíð er enn einn af mínum bestu vinum og við erum alltaf í nánu sambandi og höfum verið í gegnum tíðina. Ég mundi það einmitt fyrir viðtalið hjá þér þegar við Davíð sátum saman í kvöldverð fyrir næstum því nákvæmlega 30 árum síðan. Þá sátum á Hótel Holti til að fagna því að Davíð var að mynda sína fyrstu ríkisstjórn. Við sátum þarna ég, Davíð, Kjartan Gunnarsson, Björn Bjarnason og eiginkonur þeirra þriggja. Þetta var mjög eftirminnilegt kvöld og okkur leið svolítið eins og við hefðum sigrað heiminn. Svo líða nokkuð mörg ár og aftur hittumst við á sama stað árið 2009 og það er á bakvið það svolítil saga. Ég átti erindi niður í bæ og þá var þar mótmælafundur vegna Icesave samninganna og ég tók mér þar stöðu eins og hver annar. Þá sér einn fréttamaður mig í röðinni og vildi taka við mig viðtal þar sem ég myndi útskýra af hverju ég var á móti Icesave samningunum. Við förum að Dómkirkjunni, en þar var gerður aðsúgur að mér og byrjað að kasta í mig alls kyns hlutum. Það var einkennilegt að verða fyrir þessu í okkar ofbeldislausa landi. Ég veit ekki hvort þau hafa haldið að ég bæri ábyrgð á bankahruninu, en svo var líka áhugavert að allir aðrir sem sáu þetta sátu bara hjá og enginn gerði sig líklegan til að hjálpa mér, heldur tóku þetta bara upp á símana sína. Mér tókst að komast við illan leik inn í Alþingishúsið og átti fótum mínum fjör að launa. Skömmu eftir þetta hringir síminn og það er Davíð Oddsson, sem hafði séð hvað ég var grátt leikinn í sjónvarpsfréttunum. Hann segir að hann og Kjartan Gunnarsson vilji bjóða mér út að borða til að reyna að láta mér líða betur eftir þetta. Og þá sátum við á sama borði og 18 árum fyrr og áttum aftur góða kvöldstund. En þetta sýnir hversu skjótt veður geta skipst í lofti.”

Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn á röltinu í Lækjargötu

Ekki eðlilegt að senda skattgreiðendum reikninginn

Hannes sem hefur oft verið umdeildur í gegnum tíðina fyrir skoðanir sínar segir í viðtalinu að vestrænn kapítalismi sé ekki endirinn eins og margir sem aðhyllast hann töldu upp úr 1990.

„Þetta er góð spurning og ég gæti svarað henni í löngu máli, en ætla að gera það í stuttu máli. Í kringum 1990 töldum við sem studdum frjálsan markað að við hefðum sigrað í hugmyndabaráttunni. Sósíalisminn lá og hafði veitt fólki fátækt og kúgun. Það virkaði eins og frjálsa hagkerfi vesturlanda væri lokamarkmið sögunnar. En svo var það auðvitað ekki þannig, eins og bæði rétttrúnaðarstefnan í Islam og fjármálakreppan sýndu. Það sem gerðist fyrir fjármálahrunið var að það streymdi of mikið af ódýru fjármagni út í hagkerfið og þá þarf auðvitað að leiðrétta það,” segir Hannes og segir jaframt óeðlilegt að hið opinbera bjargi einkafyrirtækjum sem eru illa rekin.

„Þú spyrð hvort kapítalistar sem reka fyrirtækin sín illa eigi ekki bara að fara á hausinn og þar er ég hjartanlega sammála. Það er ekki eðlileg leikregla að senda skattgreiðendum peninginn ef einkafyrirtæki fara á hausinn.”

„Vinstri menn eru sífellt óánægðir og sofa illa á næturna ef aðrir græða eða gengur vel, en hægri menn eru sáttari við tilveruna og ópólitískari“

Spurður út í fræg ummæli sín um að hann vilji græða á daginn og grilla á kvöldin segir Hannes:

„Við getum orðað það þannig að hægri menn eru miklu minni hægri menn en vinstri menn eru vinstri menn. Vinstri menn eru sífellt óánægðir og sofa illa á næturna ef aðrir græða eða gengur vel, en hægri menn eru sáttari við tilveruna og ópólitískari. Auðvitað er þetta alhæfing, sem stundum eru ekki heppilegar, en það er allavega eitthvað til í þessu.”

Hannes segist almennt hlynntur því að auka frelsi einstaklingsins og að við færum okkur sem mest frá kjörklefalýðræði yfir í kjörbúðalýðræði:

„Í kjörbúðinni kýstu með krónunum þínum, þú veist hvað hlutirnir kosta og færð það sem þú vilt. Ef þú færð ekki það sem þú vilt ferð þú og kaupir eitthvað annað annars staðar. En í kjörklefanum færðu bara að velja á fjögurra ára fresti og þú veist ekki alveg hvað þú ert að kaupa og hefur enga leið til að skila gripnum ef hann er gallaður. Það sem við eigum að gera er að flytja fleiri og fleiri ákvarðanir úr kjörklefanum í kjörbúðina. Skila krónunum í vasa fólks svo það geti ákveðið sjálft hvað það gerir við peningana sína. Lykilorðið er að minnka umsvif ríkisins.”

Viðtalið við Hannes hjá Sölva Tryggvasyni má heyra í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið
Fréttir
Í gær

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“