RÚV skýrir frá þessu. Fram kemur að í bréfinu sé vísað til umfjöllunar fjölmiðla um ásakanir á hendur Ara og þriggja annarra „um þátttöku í ósæmilegri kynferðislegri háttsemi gagnvart ungri konu í lok árs 2020.“
Í bréfinu kemur fram að stjórn Auðhumlu hafi borist ónákvæmar upplýsingar um málið í lok október á síðasta ári og það „strax tekið alvarlega vegna þess möguleika að upplýsingarnar væru réttar, og hefur stjórn félagsins fundað oft um málið, bæði með framkvæmdastjóra og án hans.“
Málið var síðan enn til meðferðar hjá stjórninni „í síðustu viku þegar vatnaskilin urðu.“
Þar vísar stjórnin væntanlega til viðtals Eddu Falak við Vitalíu Lazarevu, þolandans í málinu, og umfjöllun fjölmiðla í framhaldinu.
Í bréfi stjórnarinnar segir að ásakanirnar sem hafi komið fram á hendur Ara séu „með þeim hætti að stjórn taldi sér skylt, að vel athuguðu máli, að segja upp ráðningarsamningnum við hann […] með hliðsjón af hagsmunum félagsins, starfsfólks og viðskiptamönnum þess, og ekki síður meintum þolanda.“