Þetta er mat Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðings hjá danska varnarmálaskólanum. Í samtali við B.T. sagði hann að áður hafi Krím haft sérstaka stöðu, verið sérstakt, einstakt og vísar meðal annars til að Pútín hafi margoft sagt að hann sé reiðubúinn til að verja Krím með öllum tiltækum ráðum. Þar á meðal kjarnorkuvopnum.
En í tengslum við innlimun Kherson, Zaporizjzja, Luhansk og Donetsk í Rússland hefur Pútín einnig sagt að Rússland sé reiðubúið til að verja þessi nýju svæði með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal kjarnorkuvopnum. Hann hefur einnig lagt áherslu á að hann sé ekki að blekkja þegar hann segir þetta.
„Með þessu er grafið undan sérstöðu Krím. Það er ekki mjög snjallt,“ sagði Nielsen.
Hann sagðist heldur ekki skilja af hverju Rússar hafi ákveðið að innlima héruðin á grunni atkvæðagreiðslna sem alþjóðasamfélagið segir ólöglegar. Það geti haft stór vandamál í för með sér fyrir Rússland.
„Pútín innlimar jú borgarastyrjöld með þessum fjórum héruðum sem Rússar hafa ekki einu sinni fulla stjórn á. Þetta getur opnað öskju Pandóru. Því þetta getur ýtt við öðrum svæðum í Rússlandi sem vilja kannski losna út,“ sagði hann.