Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að blaðið sé með hljóðupptöku af lokaorðum Lilju á Safnaþinginu undir höndum. Þar heyrist hún biðjast velvirðingar á að hafa skipað Hörpu í embætti þjóðminjavarðar og setur þá afsökunarbeiðni fram í ljósi þeirra viðbragða sem skipunin hefur vakið.
„Ég átta mig alveg á vonbrigðunum og ef ég hefði áttað mig á að þetta væri í raun og veru staðan þá hefði ég gert annað. Ég bara – það er ekkert mál fyrir mig að segja það hér hátt og skýrt. En við verðum að vinna með þetta. Ég ber ábyrgð á þessu … þarna kannski vanmat ég það að það væri þörf á að auglýsa starfið,“ segir Lilja einnig. „…ef ég hefði áttað mig betur á því þá hefði ég bara gert það – það hefði ekki verið neitt mál – ég harma það að við séum komin í þessa stöðu og það er ekki ykkur að kenna… Ég er bara miður mín yfir þessu,“ heyrist hún segja á upptökunni að sögn Fréttablaðsins.
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við nokkra gesti Safnaþings um málið og skoðun þeirra á skipun Hörpu í embættið og orð Lilju á þinginu. Hægt er lesa nánar um það í Fréttablaðinu sem og nánari umfjöllun um það sem Lilja sagði.