Aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu stendur nú yfir í Landsrétti en héraðssaksóknari áfrýjaði málinu þangað. Angjelin Sterkhaj var í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að hafa skotið Armando Bequiri til bana fyrir utan heimili þess síðarnefnda við Rauðagerði, laugardagskvöldið 13. febrúar árið 2021. Þrjár manneskjur voru ákærðar fyrir samverknað með Angjelin við morðið en fólkið var sýknað í héraðsdómi.
Héraðssaksóknari krefst þess að dómurinn yfir Angjelin verði þyngdur og hitt fólkið verði sakfellt fyrir samverknað, en þau eru Shpetim Qerimi, Claudia Sofia Coelho Carvalho og Murat Selivrada.
Sem fyrr segir er málið fyrir Landsrétti í dag en búast má við dómi þar eftir nokkar vikur. Dómar í Landsréttir eru kveðnir upp á föstudögum.