Drónunum hefur verið flogið mjög nærri borpöllunum. Ekki er vitað hverjir stýrðu þeim en á mánudaginn varaði norska eldsneytiseftirlitsstofnunin við að hætta geti stafað frá drónunum og að hugsanlega verði þeir notaði til að gera árásir á borpallana.
Á síðustu vikum hafa að minnsta kosti sex drónar sést innan 500 metra öryggissvæðis sem er í kringum borpallana. Stavanger Aftenblad segir að tveir hafi sést 17. september. Annar var á Kristina-svæðinu sem er 195 km frá vesturströnd Noregs og hinn var á Gina Krog gassvæðinu sem er 230 km suðvestan við Stavanger.
Þann 20. september sást einn aðeins 50 metra frá Heidrun-borpallinum sem er um 160 km frá landi. Stavanger Aftenblad segir að einnig hafi drónar hugsanlega verið á ferð við Ringhorne-borpallinn sem er vestan við Stavangeru.
Norski varnar- og öryggismálamiðillinn AldriMer segir að drónar hafi einnig sést við Gullfaks C-svæðið, Johan Sverdrup-borpallinn og Snorre A-svæðið undan vesturströnd Noregs.
Að fljúga dróna svona langt út á haf krefst þess líklega að fyrst sé siglt með þá áleiðis og þeir síðan sendir á loft frá skipinu. Af þeim sökum geta gögn um skipaumferð hugsanlega hjálpað norskum yfirvöldum við að upplýsa hver eða hverjir stóðu á bak við þetta. Yfirvöld hafa þó ekki sagt neitt til um það enn sem komið er en segjast halda öllum möguleikum opnum.
Heimildarmaður innan norska hersins sagði í samtali við AldriMer að þar á bæ leiki grunur á að „ríki“ hafi staðið á bak við þetta. Enginn hefur nefnt það ríki á nafn en ekki má gleyma að Rússar hafa á síðustu mánuðum nýtt sér orkuskort í Evrópu sem vopn gegn ríkjunum í Vestur-Evrópu.
Þá hljóta grunsemdirnar að beinast í auknum mæli að Rússum í ljósi atburða gærdagsins þar sem kom í ljós að göt höfðu verið sprengd á Nord Stream 1 og 2 gasleiðslurnar í Eystrasalti.
Skemmdarverkin á gasleiðslunum í Eystrasalti – Voru Rússar að verki?