Anna Dóra Sæþórsdóttir, forseti Ferðafélags Íslands, hefur tilkynnt um afsögn sína. Hún segist gera þetta með miklum trega en útskýrir ákvörðun sína með því að ágreiningur hafi komið upp í stjórn félagsins með hvernig hafi verið tekið á tilteknum málum, meðal annars málum er vörðuðu grófa kynferðislega áreitni innan félagsins.
Eitt þessara mála, þó að Anna Dóra nafngreini ekki viðkomandi, varðar fyrrverandi stjórnarmann félagsins. Helga Jóhannesson, fyrrverandi yfirlögfræðing Landsvirkjunar, en hann sagði sig úr stjórn félagsins í nóvember á síðasta ári eftir að mál varðandi meinta kynferðislega áreitni hans í garð kvenna á ólíkum vettvangi, þar á meðal innan Ferðafélagsins, komu til opinberrar umræðu.
Sjá einnig:
Þriðja málið tengt Helga sagt hafa verið til umfjöllunar hjá Ferðafélagi Íslands
Helgi gengst við ábyrgð – „Bið þess innilega að fyrirgefningabeiðni mín verði tekin til greina“
Anna Dóra segir að henni til furðu hafi stjórnarmenn aftur viljað taka upp mál Helga, nokkrum mánuðum eftir að það var til lykta leitt með úrsögn hans, og hafi einn stjórnarmaður beitt sér af hörku fyrir því að Helgi fengi aftur að starfa fyrir hönd félagsins. Nýlega hafi Anna Dóra fengið nýjar upplýsingar em „enn eitt málið“ er snerti annan stjórnarmann sem hafi ekki verið meðhöndlað í samræmu við stefnu félagsins og hafi viðbrögðin við því er Anna fór að grafast fyrir um málið verið hörð. Í kjölfarið hafi hún fengið bréf þar sem henni var bannað að vera í samskiptum „við framkvæmdastjóra, starfsfólk skrifstofu félagsins og annað stjórnarfólk næstu mánuði“ en auk þess hafi henni verið sýnd óvild og dónaskapur.
Anna segist ekki vilja starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi gangi þvert á hennar eigin eða í hópi þar sem útilokum og dónaskapur séu talin ásættanleg hegðun.
Hún greinir frá ákvörðun sinni í ítarlegi færslu á Facebook.
„Kæru vinir, rétt í þessu sendi ég tilkynninguna hér að neðan til Ferðafélags Íslands þar sem ég tilkynni um afsögn mína sem forseti félagsins. Það er með miklum trega sem ég geri það en eins og kemur fram í bréfinu þá vil ég ekki starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem ganga þvert á mín eigin gildi, ráða ríkjum. Ég hef reynt að vinna að breytingum en innan stjórnar hefur ekki verið vilji til að breyta starfsháttum og því skilja leiðir. Ástæður afsagnarinnar geri ég opinberar því mér finnst rétt að upplýsa félagsfólk um þau mál sem eru í gangi innan félagsins.“
Anna segir að það hafi henni verið mikill heiður að vera valin fyrst kvenna til að gegna embætti forseta félagsins í júní í fyrra. Hún hafi bæði menntun og reynslu sem henti starfinu vel og hafi eins unnið að rannsóknum á málefnum ferðaþjónustunnar.
„Fljótlega eftir kosningu fóru mér að berast upplýsingar um ýmis mál sem ekki hafði verið brugðist við af hendi félagsins, heldur virtist upplýsingum ítrekað hafa verið stungið undir stól, hvort sem þær vörðuðu ásakanir um áreitni og gróft kynferðislegt ofbeldi eða athugasemdir um rekstur félagsins. Þegar ég fór að beita mér fyrir því að tekið yrði á þessum málum og öðrum fór að bera á brestum í samstarfi mínu við stjórn og framkvæmdastjóra.“
Hún segir að alvarlegustu málin hafi snert einstaklinga sem hafi gerst brotlegir á siðareglum félagsins eða verið sakaðir um áreitni eða gróft kynferðisleg ofbeldi.
„Æðstu stjórnendur félagsins höfðu haft upplýsingar um þessi mál í lengri tíma, án þess að taka á þeim. Þvert á móti fengu þeir sem þessum sökum voru bornir að starfa áfram sem fararstjórar á vegum félagsins. Eitt þessara mála varðaði stjórnarmann í félaginu. Ég beitti mér fyrir því að tekið yrði á þessum málum af festu og setti af stað athugun á þeim, sem og endurskoðun á stefnu og ferlum félagsins þegar kemur að slíkum málum. Í kjölfarið voru þessi mál til lykta leidd, og það síðastnefnda með því að viðkomandi stjórnarmaður sagði sig úr stjórn.“
Önnu til undrunar hafi komið upp mikill ágreiningur í stjórn um meðhöndlun áðurnefndra mála og hafi einstaklingar innan stjórnar ekki viljað taka á þeim.
„Samstarfsörðugleikar hafa verið í stjórninni allt frá því að þessi mál komu upp. Ég taldi hins vegar að það væri ætlun stjórnar að halda ótrauð áfram eftir afgreiðslu þeirra. Mér kom því á óvart þegar ákveðnir stjórnarmenn vildu fljótlega taka aftur upp málið sem varðaði stjórnarmanninn fyrrverandi, fáum mánuðum eftir að það var til lykta leitt með úrsögn hans úr stjórn félagsins.
Einn af þessum stjórnarmönnum, sem er góðvinur þessa fyrrverandi stjórnarmanns, hefur beitt sér af hörku fyrir því að stjórnarmaðurinn fyrrverandi fái aftur að starfa fyrir hönd félagsins, þrátt fyrir að engin málefnaleg eða viðskiptaleg rök séu fyrir því. Sá sem sagði af sér hefur enga sérhæfða þekkingu til starfa innan félagsins, sem fjöldi annarra getur ekki innt jafnvel af hendi.
Ávinningur af slíkri ráðstöfun væri því enginn fyrir Ferðafélagið en myndi hins vegar valda félaginu orðsporsáhættu og mögulega aftra fólki frá þátttöku í ferðum félagsins, auk hættunnar á því að fyrri hegðun myndi endurtaka sig og aðrar konur yrðu fyrir áreitni. Helstu rökin sem notuð voru til að réttlæta endurkomu umrædds fyrrverandi stjórnarmanns voru að hann væri „vinur okkar“ og að „við skulduðum honum“. Það er að mínu mati óeðlilegt að stjórnarfólk taki þátt í umræðu og ákvörðunum um vini sína og beiti aðstöðu sinni til að veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu.“
Eins og áður segir er umræddur maður lögmaðurinn Helgi Jóhannesson en samkvæmt frétt Vísis er sá stjórnarmaður sem barðist fyrir endurkomu Helga læknirinn Tómas Guðbjartsson. Anna segir að nýlega hafi annað mál komið upp varðandi hegðun annars stjórnarmanns og hafi því verið tekið illa er Anna fór að grafast fyrir um málið.
„Nýlega bárust mér upplýsingar um enn eitt málið (áreitni og ósæmileg hegðun í skipulagðri ferð á vegum félagsins) sem snertir stjórnarmann í félaginu, sem hafði ekki verið meðhöndlað í samræmi við stefnu félagsins. Þegar ég fékk veður af málinu og óskaði eftir upplýsingum um það, voru viðbrögðin þau að hafa uppi óbeinar hótanir gagnvart fararstjóra ferðarinnar, auk þess sem haft var samband við vinkonu konunnar sem fyrir áreitinu varð. Þeim var tilkynnt að það myndi hafa afleiðingar ef þetta mál yrði rætt frekar.“
Fleiri mál hafi komið upp sem valdi ágreiningi, þar á meðal mál er varði almennan rekstur félagsins og stjórnarhætti þess. Ítrekað hafi verið kvartað undan spurningum Önnu um rekstur félagsins þó að slíkt hafi heyrt undir ábyrgðarsvið forseta og stjórnar.
„Sagt var að ég ætti að einbeita mér að þeim þáttum sem ég hafi sérþekkingu á, sem sé ferðamálum, náttúruvernd og umhverfismálum. Þetta hafði þau áhrif að ég fór að veigra mér við því að spyrja spurninga til að halda friðinn. Í því samhengi er vert að nefna að ein af meginskyldum stjórnar er að hafa eftirlitshlutverk með stjórnendum og starfsemi félagsins og slíkt er ómögulegt ef stjórn stuðlar að menningu og andrúmslofti þar sem spurningar eru illar séðar.“
Niðurstaða Önnu hafi verið sú að innan stjórnar sé fólk sem beri ekki hagsmuni félagsins og félagsmanna fyrir brjósti.
„Áherslan hjá þessu fólki virðist vera að viðhalda ákveðnu valdajafnvægi þar sem embættum og verkefnum er úthlutað til stjórnarfólks og vina og ekki er tekið á málum sem snerta þá sem tengjast þessum einstaklingum. Þessi hópur bregst ókvæða við þeim sem reyna að breyta því hvernig félagið vinnur ef slíkt kynni að raska valdajafnvæginu.
Þetta valdajafnvægi endurspeglast kannski hvað best í samsetningu stjórnar. Í stjórn félagsins og starfsmannahópi situr fólk sem tengist sterkum böndum, ýmist í gegnum það að hafa setið mjög lengi í stjórninni, sumir vel á annan áratug, eða með fjölskyldu- og vinaböndum. Tilraunum til að breyta þessu í aðdraganda síðasta aðalfundar var illa tekið. Formaður kjörnefndar, vinur þess stjórnarmanns sem sagði sig úr stjórninni vegna metoo-mála, virti að vettugi óskir mínar um að inn í stjórnina kæmi ung kona og lagði þess í stað til að vinur framkvæmdastjóra félagsins yrði stjórnarmaður. Gekk það eftir.
Fyrrgreind málefni hafa orðið þess valdandi að ákveðið stjórnarfólk sýnir mér óvild og dónaskap og hefur reynt að útiloka mig frá starfi félagsins. Þetta kemur hvað skýrast fram í bréfi sem ég fékk frá meirihluta stjórnar þann 1. júní síðastliðinn þar sem mér var bannað að vera í samskiptum við framkvæmdastjóra, starfsfólk skrifstofu félagsins og annað stjórnarfólk næstu mánuði. Ég átti engu að síður að sitja áfram sem forseti með þeirri ábyrgð sem í því felst. Þetta bréf er í raun birtingarmynd þeirra stjórnarhátta sem tíðkast innan félagsins og framkomu meirihluta stjórnar í minn garð.
Ég vil ekki starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi sem ganga þvert á mín eigin gildi ráða ríkjum. Ég hef enn fremur ekki áhuga á að starfa með hópi þar sem útilokun og dónaskapur eru talin ásættanleg hegðun. Það er von mín að starfshættir félagsins breytist því að samfélagið hefur breyst og mikilvægt er að stærsta útivistarfélag landsins taki mið af þeim siðferðisgildum sem ríkja í þjóðfélaginu. Þar sem ekki virðist vera vilji innan stjórnar félagsins að breyta þessu segi ég hér með af mér sem forseti Ferðafélags Íslands.
Það er von mín að félagar í Ferðafélagi Ísland muni á komandi misserum beita sér fyrir breyttum starfsháttum og siðbót innan félagsins. Þangað til að svo verður hef ég ekki áhuga á því að starfa frekar innan félagsins og segi mig hér með einnig úr félaginu.
Virðingarfyllst,
Anna Dóra Sæþórsdóttir“