Morgunblaðið hefur þetta eftir Ómari Erni Bjarnþórssyni, lögmanni Sindra. Hann sagði að handtakan í síðustu viku hafi farið friðsamlega fram. Lögreglan hafi verið með mikinn viðbúnað en Sindra hafi ekki verið skellt í jörðina eða beittur álíka tökum.
Ómar sagði að Sindri neiti sök og viðurkenni ekki að hafa verið að undirbúa hryðjuverk eða fjöldamorð og að hann kannist ekki við að vera í tengslum við erlenda öfgahópa. Hann hefur að sögn Ómars gefið lögreglunni upp aðgangsorð að síma sínum og tölvu.
Ómar sagðist reikna með að lögreglan fari fram á lengra gæsluvarðhald yfir Sindra en hann var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.
Ómar gagnrýndi einnig DV fyrir að birta nafn Sindra fyrir helgi. „Má ekki bíða með svona hluti?“ sagði hann og benti á að ákæra hafi ekki verið gefin út.
Hann sagði einnig að lögreglan hafi farið svolítið fram úr sjálfri sér á blaðamannafundinum í síðustu viku, miðað við á hversu viðkvæmu rannsóknarstigi málið sé.