Þann 13. október verður aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í máli gegn Sveini Rúnari V. Pálssyni en hann er ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot og peningaþvætti við rekstur einkahlutafélagsins L1007, sem áður hét Þrif og ræstivörur.
DV hefur ákæru héraðssaksóknara í málinu undir höndum. Var ákæran gefin út í byrjun desember árið 2020. Sveinn Rúnar var daglegur stjórnandi fyrirtækisins með prókúru og skráður varamaður í stjórn þess fram til 2019 en varð síðan framkvæmdastjóri félagsins. Honum er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir rekstrarárin 2016, 2017 og 2018, samtals 203.562.442 kr.
Hann er jafnframt sakaður um að hafa aflað félaginu ávinnings að þessari sömu fjárhæð, nýtt ávinninginn í þágu hlutafélagsins, en það flokkast undir peningaþvætti.
Þess er krafist að Sveinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þess má geta að á heimasíðu fyrirtækisins Þrif og ræstivörur er Sveins getið sem annars eiganda og fyrirtækið sagt vera með 40 starfsmenn í vinnu. Annars vegar sinnir það ræstingaþjónustu og hins vegar selur það viðurkenndar ræstivörur í verslun sinni á Akureyri. Á Facebook-síðu fyrirtækisins er síðasta færsla frá því í ágústmánuði. Ljóst er að fyrirtækið er rekið á annarri kennitölu en áður því félagið L1007, sem áður hét Þrif og ræstivörur, er gjaldþrota.