Aðeins eru liðin fjögur ár síðan nýtt dómstig, Landsréttur, tók til starfa og var markmiðið ekki síst til að létta álaginu af Hæstarétti. Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag kemur fram að kerfið sé þegar sprungið en nú geta þeir sem áfrýja málum sínum úr héraði til Landsréttar átt von á því að bíða í á annað ár eftir því að mál þeirra komist á dagskrá. Sakamál eru í forgangi.
Alls starfa fimmtán dómarar við Landsrétt og yfirleitt taka þrír dómarar þátt í meðferð hvers máls fyrir dómi. Gunnar Viðar, skrifstofustjóri Landsréttar, segir í viðtali við Fréttablaðiðið að biðin sé of löng og að fjölga þurfi dómurum við réttinn. „Það er mikið álag á dómurum, hér koma yfir átta hundruð mál á ári,“ segir Gunnar Viðar.
Haft er eftir Jóni Gunnarssyni, dómsmálaráðherra, að ástandið sé ekki boðlegt og til skoðunar sé í ráðuneytinu að fjölga dómurum. Fjölgun um einn dómara myndi strax breyta miklu.