Margréti Friðriksdóttur, ritstjóra Fréttin.is, var vísað úr flugvél Icelandair í morgun eftir að hafa neitað að virða grímuskyldu. Fréttablaðið greinir frá þessu en í umfjöllun blaðsins kemur fram að starfsfólk Icelandair hafi óskað eftir aðstoðar lögreglu til að fylgja Margréti úr vélinni og til átaka hafi komið.
Í umfjölluninni kemur fram að Margrét hafi verið á leið til Moskvu, höfuðborgar Rússlands, í vinnutengdum erindagjörum með viðkomu í Þýskalandi. Enn er grímuskylda í öllu flugi til Þýskalands.
Margrét segir í umfjöllun Fréttablaðsins að flugþjónar Icelandair hafi byrjaðað vera með stæla við sig um leið og hún gekk inn í flugvélina. Starfsmennirnir hafi sagt að ekki væri pláss fyrir cabin-tösku Margrétar en hún hafi séð að það væri ekki rétt.
„Svo fóru þær að tala um að það væri grímuskylda og ég sagði bara ha? Er grímuskylda? Ég er ekki búin að heyra um það lengi, ég hélt þetta væri bara búið þetta Covid. En þeim fannst ég vera með rosa vesen og vísuðu mér úr vélinni og ég fékk ekki að fljúga,“ segir Margrét.
Hún staðfestir ennfremur að lögregla hafi verið kölluð til en segir að lögreglumennirnir hafi ekki átt orð yfir framkomu starfsmanna Icelandair því að Margrét hafi ekki verið með nein læti. Segist hún vonast eftir því að fá endurgreitt.
Nánar er fjallað um málið á vef Fréttablaðsins