Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman dæmi um hvernig verðlagshækkanir á liðnu ári geta birst í mánaðarlegum útgjöldum heimilanna.
Dæmin sýna hvernig hækkanir á nokkrum helstu kostnaðarliðum – svo sem húsnæði, samgöngum, matvöru og heimilisbúnaði – birtast í mánaðarlegum útgjöldum hjá mismunandi heimilisgerðum.
Þessi dæmi eru byggð á verðhækkunum á völdum útgjaldaliðum og útgjöldum mismunandi heimilisgerða á leigumarkaði og í eigin húsnæði. Dæmin sýna að mánaðarlega útgjaldaaukningu upp á 26 þúsund krónur fyrir einstakling í leiguhúsnæði og upp í 128 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði. Þarna er miðað við verðlagsbreytingar frá ágúst 2021 til ágúst 2022.
Fjallað er um samantekt ASÍ á vef samtakanna og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, vekur athygli á henni á Facebooksíðu sinni.
Vilhjálmur segir þessar kostnaðarhækkanir „gjörsamlega sláandi.“
„En eins og kemur fram í þessari samantekt hafa útgjöld heimilanna hækkað á síðustu 12 mánuðum frá 25.000 kr. á mánuði upp í allt að 128.000 kr. á mánuði eftir búsetuformi. En til að hafa 128.000 kr. í ráðstöfunartekjur þyrftu laun að hækka um 190.000 kr. á mánuði að teknu tilliti til skatta og annarra gjalda,“ segir hann.
Vilhjálmur segir að því miður blasi við að fátt geti komið í veg fyrir alvarleg átök á íslenskum vinnumarkaði í ljósi þessarar grafalvarlegu stöðu sem nú er að herja á neytendur, launafólk og heimili.
„Stærsti hluti þessa vanda liggur í hækkun vaxta, hækkun matarverðs og annarra nauðsynjavara og þjónustu sem heimilin þurfa á að halda til að geta framfleytt sér og sinum. Þetta eru blákaldar staðreyndir og það er ljóst að ef stjórnvöld, Seðlabankinn, sveitarfélögin og Samtök atvinnulífsins átta sig ekki á þessari alvarlegu stöðu sem stór hluti launafólks er í þá mun fara illa,“ segir Vilhjálmur.