Í umfjöllun um rannsókn lögreglunnar á Akureyri á máli sem varðar stuld á síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja, hefur verið varpað fram efasemdum um að honum hafi verið byrlað. Hefur því verið haldið fram að ekkert liggi fyrir sem staðfesti að Páll hafi verið þolandi byrlunar í aðdraganda þess að hann veiktist hastarlega vorið 2021, síma hans var stolið og gögn afrituð úr honum. .
Því hefur verið haldið fram að kona nákomin Páli hafi byrlað honum og stolið síma hans, Í greinargerð saksóknara í málinu, byggt á lögrgluskýrslum, segir þar að aðili sem kallaður er X hafi játað í yfirheyrslu þann 5. október 2021 að hafa sett ótilgreint lyf út í drykk Páls. Segir einnig í skýrslunni að er þarna hafi verið komið í viðtalinu hafi lögmaður aðilans stöðvað játninguna. Sá lögmaður er Lára V. Júlíusdóttir.
Í greinargerðinni er einnig haft eftir aðila X að hún hafi verið með síma Páls er hann lá á sjúkrahúsi í maí 2021. Hún játar að hafa skoðað gögn í símanum sem og að hafa afhent fjölmiðlamönnum símann. Gaf hún ekki upp í yfirheyrslunni hvaða fjölmiðlamönnum hún afhenti símann. Hún afhenti Páli síðan símann aftur er hann útskrifaðist af sjúkrahúsi þann 11. maí 2021.
Samkvæmt heimildum DV neitar konan því þó tvisvar síðar í lögregluyfirheyrslum að hafa byrlað Páli eða nokkrum manni.
Frétt hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu fréttar var staðhæft að DV hefði undir höndum brot af lögregluskýrslum málsins. Það er rangt. Gögnin sem um ræðir er greinargerð saksóknara í málinu en þar er m.a. vísað í lögregluskýrslur. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.