Mennirnir fjórir sem handteknir voru í aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra í gær eru grunaðir um að framleiða skotvopn með þrívíddarprenturum og alvarlegar hótanir. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV en farið verður fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum í dag samkvæmt fréttastofu. Mennirnir voru handteknir í Holtasmára í Kópavogi og í iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ í gær.
Fréttablaðið greindi frá handtökunni í Kópavogi sem að vakti tölvuverða athygli vegfarenda og lýsti einn því sem svo að töluvert uppnám hefði orðið.
Lögreglan hefur ekki viljað svara neinu til um málið en klukkan þrjú í dag verður haldinn blaðamannafundur þar sem að frekari upplýsingar verða veittar.
DV hefur heimildir fyrir því að aðgerðir lögreglu séu umfangsmiklar og hafi staðið yfir frá því í síðustu viku. Um sé að ræða rassíu vegna skotvopna í undirheimunum, sér í lagi framleiðslu á þrívíddarprentuðum byssum sem verða æ algengari hérlendis.
DV hefur heimildir fyrir að minnsta kosti fimm öðrum húsleitum sem áttu sér stað síðustu daga en mögulega eru þær enn fleiri.
Auk þeirra fjögurra sem voru handteknir í gær voru að minnsta kosti tveir aðrir handteknir í síðustu viku.
Fréttamiðillinn Mannlíf náði myndbandi af aðgerð lögreglunnar við Gullinbrú í Grafarvogi en þar var annar hinna tveggja tekin höndum. Samkvæmt blaðamanni miðilsins umkringdu þrír ómerktir bílar með fjöldi sérsveitarmannavo bíla í vegkantinum. Aðeins einn var handtekinn, eins og áður segir, en lögreglan fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum en á það var ekki fallist og var manninum sleppt að lokinni skýrslutöku.
Hinn sem DV veit til að var handtekinn var hins vegar úrskurðaður í gæsluvarðhald í eina viku sem er því við það að renna út.
DV hefur verið í sambandi við aðila sem að tengjast málunum og er það skoðun þeirra að lögreglan hafi farið offari í málinu og haft lítið upp úr krafsinu.