Harmleikur átti sér stað í Leeds á Englandi í gær er 10 ára drengur og móðir hans fundust látin á heimili sínu. Nágrannar mæðginanna höfðu haft samband við lögregluna þar sem þau höfðu ekki séð mæðginin í dágóða stund. Þegar lögreglan mætti á vettvang kom hún að líkum mæðginanna. Lögreglan telur að móðirin hafi myrt son sinn og tekið eigið líf í kjölfarið.
Í yfirlýsingu frá lögreglunni kemur fram að andlát drengsins verði rannsakað sem morð. Enn sé ekki búið að komast að öllum smáatriðum er varða aðdraganda morðsins en þrátt fyrir það er ekki verið að leita að neinum sem gætu átt hlut að máli. Það er því ljóst að lögreglan telur að móðirin hafi orðið syni sínum að bana.
The Sun fjallaði um málið og ræddi við nágranna mæðginanna um það. „Þetta er hryllilega sorglegt mál. Við vorum búin að heyra af því að móðirin ætti í erfiðleikum með strákinn sinn. Hann var einhverfur og henni fannst það erfitt,“ segir til að mynda einn nágranninn. „Hún var góð móðir og við sáum hana oft að ganga um hverfið með syni sínum. Hann nam alltaf staðar hjá garðinum mínum og klappaði litla hundinum mínum.“
Annar nágranni, tveggja barna móðir að nafni Julie, segist hafa heyrt að móðirin hafi átt við andleg vandamál að stríða. „Þetta varð allt saman of mikið fyrir hana. Hún var mjög mikið út af fyrir sig og enginn hérna í kring virkilega þekkti hana. Hún var portúgölsk og flutti hingað fyrir tveimur eða þremur árum síðan. Við vitum ekki hvort hún hafi fengið þá hjálp sem hún vantaði,“ segir Julie.
„Ég get ekki ímyndað mér neitt sorglegra.“
Þau sem glíma við sjálfsvígshugsanir eða hugsa um að skaða sig eru minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið.
Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn. Nánari upplýsingar hér:
Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.