Þórður Snær Júlíusson skrifar grein í Kjarnanum í dag „um rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á fjórum blaðamönnum, umfjöllun fjölmiðla um hana, aðkomu stjórnmálamanna og það sem gögn málsins sýna að átt hafi sér stað.“
Þórður Snær er ritstjóri Kjarnans en hann skrifar greinina ekki sem slíkur né heldur sem blaðamaður „heldur yfirlits- og skoðanagrein sem ég skrifa í eigin nafni“ en Þórður er einn þeirra fjögurra blaðamanna sem eru til rannsóknar hjá lögreglunni vegna umfjöllunar um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja.“
„Samhliða birtingu þessarar greinar hef ég afhent Blaðamannafélagi Íslands öll gögn málsins, enda varðar það störf, starfsaðstæður og frelsi allra blaðamanna. Það er gert svo fagfélag stéttarinnar geti metið sjálfstætt að hér sé ekkert slitið úr samhengi. Verði ákveðið að fara á eftir mér fyrir að deila þeim gögnum með fagfélagi blaðamanna, þá verður einfaldlega að hafa það,“ skrifar hann.
Greinin er löng og ítarleg. Þar skrifar hann að sú aðför að frjálsri fjölmiðlun sem Samherji hefur staðið fyrir sé ekki réttarríki sæmandi.
„Um er að ræða aðför að fólki fyrir að vinna vinnuna sína eða nýta stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt. Vegna þess varð fólk skotspónn ofsókna alþjóðlegs stórfyrirtækis og fótgönguliða þess, sem að uppistöðu virðist vera fólk með afar lágan siðferðisþröskuld, enga virðingu fyrir samfélagssáttmálanum og litla mannlega reisn.
Umfjöllun okkar um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“ opinberaði skýrt að stjórnendur, starfsmenn og ráðgjafar Samherja voru saman í þessari vegferð við að skapa ótta hjá öðrum blaðamönnum, og eftir atvikum öðru fólki með skoðanir á samfélagsmálum, sem settir voru í skotlínu „Skæruliðadeildar“ fyrirtækisins svo þeir hræðist að fjalla um fyrirtækið. Allt er þetta gert eftir samþykkt „mannanna“, æðstu stjórnenda Samherja, og til að þóknast þeim,“ segir Þórður Snær.
Þá gagnrýnir hann einnig sérstaklega þátt Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í að gera störf blaðamanna tortryggileg, sem og Brynjar Níelsson, aðstoðarmann dómsmálaráðherra.
„En í mínum huga er það sem er minnst sæmandi réttarríki aðkoma háttsettra stjórnmálamanna að þessari vegferð. Með henni erum við komin á slóðir sem Ísland gefur sig ekki út fyrir að vera á. Þar er eitt að valdamesti stjórnmálamaður landsins leggist á vogaskálarnar með þeim hætti sem hann gerði, og að aðstoðarmaður yfirmanns löggæslumála í landinu hafi fylgt í kjölfarið með blessun yfirmanns síns. En annað og þungbærara er dugleysi þeirra sem veita þeim vald. Áhrifafólk sem maður taldi að myndi standa upp fyrir lýðræðinu og frjálsri fjölmiðlun, en hefur setið sem fastast.“