Með stórri og óvæntri gagnsókn tókst úkraínska hernum að hrekja Rússa frá stórum landsvæðum, bæði í norðausturhluta landsins og í suðurhlutanum, Kherson-héraðinu. Gagnsóknin var vel skipulögð og byggðist meðal annars á auknu samstarfi Bandaríkjanna og Úkraínu við upplýsingaöflun og njósnir um Rússa.
New York Times skýrir frá þessu og segir að leyniþjónustustofnanir landanna hafi aukið samstarf sitt. Þetta kemur eflaust mörgum á óvart því síðustu mánuði hefur verið töluvert um sögur um að samband Bandaríkjanna og Úkraínu væri slæmt þegar kæmi að því að skiptast á upplýsingum. Bandaríkin höfðu þó látið Úkraínumönnum mikilvægar upplýsingar í té um rússnesk skotmörk en ekki hljóðalaust.
Til dæmis höfðu Bandaríkin oft kvartað undan að fá ekki nægar upplýsingar um gang stríðsins frá Úkraínumönnum. En í sumar breyttu Úkraínumenn um stefnu og fóru að deila upplýsingum með Bandaríkjamönnum til að auðvelda þeim að hjálpa til við stríðsreksturinn. New York Times hefur þetta eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan bandaríska stjórnkerfisins.
En áður en samstarfið komst á góðan grunn áttu löndin erfitt með að starfa saman. Í sumar var samstarfið svo lítið að Avril D. Haines, forstjóri bandarísku leyniþjónustustofnanna, sagði í yfirheyrslu hjá þingnefnd að Bandaríkjamenn hefðu meiru upplýsingar um hvað væri að gerast hjá Rússum en hjá Úkraínumönnum.