Endurupptökudómstóll hefur hafnað beiðni Erlu Bolladóttur um að dómur þar sem hún var fundinn sek um rangar sakargiftir, frá árinu 1980, verði endurupptekinn. Umræddur dómur féll í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið en við rannsókn málsins hafði Erla bent á svokallaða Klúbbsmenn, sem mögulega sakborninga sem varð til þess að umræddir menn voru hnepptir í langt gæsluvarðhald.
Erla hefur haldið því fram að hún hafi verið beitt gífurlegum þrýstingi að benda á einhvern. Þetta féllst endurupptökudómstóll ekki á og sagði engin ný gögn eða upplýsingar fram komin sem hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins og ekki heldur hafi verið sýnt að lögregla, ríkið eða aðrir hafi framið refsiverða háttsemi við niðurstöðuna eða að vitni hefðu farið vísvitandi með rangt mál.
Ekki hafi verið leitt í ljós að sönnunargögn hafi verið rangt metin eða að verulegur gallar hafi verið á meðferð málsins.
Erla þarf nú að greiða skipuðum verjanda sínum ríflega þrjár milljónir í þóknun.
Endurupptökunefnd ákvað árið 2017 að mál allra sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmáli skyldu fara aftur fyrir dómstóla. Mál Erlu var ekki þar á meðal og í kjölfarið stefndi hún íslenska ríkinu.
Erla var sakfelld fyrir rangar sakargiftir ásamt Kristjáni Viðari Júlíussyni og Sævari Marínó Ciesielski fyrir að hafa bent á þá Magnús Leópoldsson, Einar Bollason, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson – svonefnda Klúbbsmenn – og sagt þá hafa átt þátt í hvarfi Geirfinns Einarssonar.
Í beiðni sinni um endurupptöku sagði Erla að hún hafi verið beitt þrýstingi af lögreglu og rannsóknardómara um að hún ætti að gangast við rannsóknartilgátum þeirra um að Klúbburinn og þá sérstaklega Magnús Leópoldsson væru viðriðnir hvarf Geirfinns. Hún hafi smám saman látið undan og gefið þær skýrslur sem að henni var lagt að gefa. Hún hafi ekki upplifað sig frjálsa og bersýnilega verið undir gríðarlegum þrýstingi og upplifað réttmætan ótta, meðal annars um að vera aftur skilin að frá dóttur sinni, líkt og hún hafi verið þegar hún var fyrst hneppt í gæsluvarðhald út af Guðmundar- og Geirfinnsmáli en í því varðhaldi sat hún í 239 daga. Hún hafi því talið sig háða lögreglunni sem hún taldi hafa ákvörðunarvald yfir lífi hennar.
Endurupptökudómstóll bendi á að þeir sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem hafa nú veri sýknaðir með endurupptöku mála þeirra hafi verið sýknaðir af þeim ásökunum að þeir hafi átt þátt í hvarfi þeirra Guðmundar og Geirfinns. Erla hafi aldrei verið sakfelld fyrir það brot heldur hafi hún verið sýknuð af þeim sökum þegar aðrir voru sakfelldir. Benti endurupptökudómstóll að dómar gegn Kristjáni Viðari og Sævari Marínó fyrir rangar sakargiftir hafi heldur ekki fengið endurupptöku.
Endurupptökudómur taldi ekkert fram komið sem hafi bent til að framburður Erlu í málinu varðandi rangar sakargiftir hafi verið þvingaður fram eða að réttarfarslög hafi verið brotin. Tóku þeir ekki heldur mark á skýrslu sálfræðings um hugarástand hennar á þessum tíma.