Undirskriftasöfnun er hafin þar sem réttlætis er krafist fyrir Erlu Bolladóttur sem var í Guðmundar og Geirfinnsmálinu dæmd fyrir meinsæri fyrir að veita rangan vitnisburð.
Á síðu undirskriftasöfnunarinnar segir:
„Erla var dæmd fyrir meinsæri á sínum tíma en löngu er ljóst að vitnisburður Erlu var þvingaður fram. Í dómi héraðsdóms þann 4. janúar síðastliðinn segir að ekki liggi ljóst fyrir að sakfelling Erlu á sínum tíma styðjist við næg gögn sem ekki séu hafin yfir allan vafa.“
Segir að framganga yfirvalda í málinu hafi verið svartur blettur á réttarsögu Íslands. Nú hafi fimm aðrir sakborningar fengið mál sín endurupptekinn og verið í kjölfarið sýknaðir. Eftir siti Erla sem sé enn neydd til að berjast fyrir réttlæti í máli sínu.
„Staðan er orðin verulega vandræðaleg fyrir dómsmálayfirvöld þar sem ljóst er orðið að sakborningar komu hvergi nærri hvarfi Guðmundar og Geirfinns. Þó áttu þeir að hafa tekið saman ráð sín um að koma sökinni yfir á aðra fjóra saklausa menn en játuðu á sig sökina á sama tíma.“
Yfirvöld á Íslandi hangi enn á því einu að þegar Erla skrifað undir skýrslu sem vitni hafi hún ekki verið í gæsluvarðhaldi „þó svo hún hafi ekki verið í gæsluvarðhaldi var hún engu að síður undirokuð einbeittum vilja þessara manna“
Skýrslur réttarsálfræðinga hafi með skýrum hætti skýrt hvernig rannsóknarlögreglumenn í málinu hafi verið í tíðum samskiptum við Erlu í mánuð áður en hún skrifaði undir vitnisburðinn. Þessir menn hafi kosið að þegja þunnu hljói þrátt fyrir alvarlegar sakir sem hafi verið á þá borna og hafi þar að auki bent hver á annan sem vitni í dómsal, árið 2016 þegar málið var endurupptekið, aðspurðir um hver hafi stjórnað rannsókninni.
„Öllum má vera ljóst það andlega og líkamlega harðræði sem Erla mátti þola. Auk þess hafði hún fætt sitt fyrsta barn aðeins 11 vikum áður en hún var upphaflega sett í einangrun, án nokkurra upplýsinga um hvar barnið væri niðurkomið. Erla sat saklaus í einangrun í 239 daga. Þess til viðmiðunar má benda á það að í dag má ekki halda einstaklingum í einangrun lengur en 30 daga samkvæmt íslenskum lögum, þar sem það er vitað hvað einangrun er mannskemmandi.“
Kemur þar einnig fram að stefnt sé að því að afla 25 þúsund undirskrifta og afhenda Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og ef fari svo að ekki verði fengið réttlæti fyrir Erlu hér heima muni málið fara fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
Í apríl var greint frá því að Erla Bolladóttir hafi farið fram á endurupptöku á sínu máli. Hún hafi unnið málið fyrir Héraðsdómi í janúar eftir að Endurupptökunefnd hafnaði máli hennar árið 2017. Ríkið hefur lagst gegn beiðni hennar um endurupptöku og hefur byggt málflutning sinn á að silyrði fyrir slíku séu ekki fyrir hendi.
Erlal sjálf hefur sagt að malið snúist um réttlæti. „Það er svo takmarkalaust virðingarleysi sem ríkir í allri framkomu við mig. Það talar aldrei neinn við mig. Menn fá alls konar fresti, 33 mánuðir hjá endurupptökunefn til dæmis, og ég er aldrei spurð. Það er eins og þetta komi mér ekki við nema þegar á að fara að dæma mig,“ sagði hún í samtali við Vísi. Munnlegur málfutningur í máli Erlu gegn ríkinu fór fram fyrir Endurupptökudómi núna fyrr í þessum mánuði. Nú er beðið eftir niðurstöðu dómsins.