Flugvél Play þurfti að lenda í Kanada á leið sinni til Bandaríkjanna vegna þess að fjarlægja þurfti flugdólg. Mbl.is greinir frá og fékk þetta staðfest frá Nadine Guðrúnu Yaghi, upplýsingafulltrúa Play.
Þetta mun vera í fyrsta sinn sem flugvél á vegum Play lendir í viðlíka uppákomu.
Mbl.is greinir frá að samkvæmt kanadísku lögreglunni sé flugdólgurinn 33 ára Bandaríkjamaður og verður hann ákærður fyrir líkamsárás og fyrir að valda lendingu.
„Farþeginn byrjar á því að láta ófriðlega, mikil læti, og fer svo að sýna ógnandi tilburði,“ sagði Nadina. Einhverjir farþegar voru færðir en enginn særðist um borð. Hún segir að flugliðar hafi fylgt öllum verkferlum og þegar ástand var orðið þannig að það ekki var hægt að halda áfram flugi var tekin ákvörðun um að lenda í Kanada. Allt hafi farið eins vel og það gat miðað við aðstæður.