Lögreglan hefur lokað tveimur götum í vesturbæ Reykjavíkur og sprengjusveit ríkislögreglustjóra kölluð út eftir að torkennilegur hlutur fannst við leikskólann Drafnarstein.
Í samtali við Fréttablaðið vill Ásgeir Þór Ásgeirsson, hjá aðgerða- og skipulagsdeild lögreglunnar, ekki staðfesta hvort sprengjuhótun hafi borist en hluturinn verður fluttur af vettvangi. Leikskólastjóri vill ekki tjá sig um málið.
Þetta er annað sinn í vikunni sem lögregla fær ábendingar um torkennilegan hlut en lögreglan á Suðurlandi eyddi í gær því sem talið er að hafi verið heimatilbúin sprengja og fannst við Vallaskóla.
Lögreglan er í samstarfi við skóla og leita eftir því að verslunareigendur setji einhvers konar hömlur á það að ungmenni geti nálgast þann efnivið sem hægt er að fá í verslunum í sprengju.
Uppfært klukkan 15:50
Vísir.is greinir frá því að um rafsígarettu hafi verið að ræða.