Ósigur Rússa í Kharkiv hefur orðið til þess að margir þekktir Rússar hafa látið skoðun sína á stríðinu í ljós. Á þriðjudaginn sagði Gennady Zyuganov, formaður kommúnistaflokksins, að hætta eigi að tala um „sérstaka hernaðaraðgerð“ og lýsa yfir stríði. „Við höfum engan rétt á að tapa,“ sagði hann á þingfundi.
Kommúnistar eru áberandi í rússneskri þjóðmálaumræðu en eru ekki við völd. Það eru Pútín og félagar hans í Sameinuðu Rússlandi.
Mikhail Sheremet, þingmaður flokksins og meðlimur í öryggismálanefnd þingsins, sagði að ef ekki verði breytt um stefnu og stríði lýst yfir þá muni upphafleg markmið ekki nást. Moscow Times skýrir frá þessu.
Dimitry Peskov, talsmaður Pútíns, vísaði þessum kröfum á bug á þriðjudaginn og sagði þetta ekki vera til umræðu. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um hrakfarirnar í Kharkiv.
Þá er ekki víst að stríðsyfirlýsing og herkvaðning muni ganga vel fyrir sig. Hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir að ef gripið verði til herkvaðningar í stórum stíl muni það mjög líklega verða varnarmálaráðuneytinu ofviða að þjálfa nýliðana og útvega þeim viðeigandi búnað. Þetta er sett fram í ljósi þess að Rússar eiga nú þegar í vandræðum við að þjálfa þann takmarkaða fjölda sjálfboðaliða sem ganga til liðs við herinn þessar vikurnar.