Landhelgisgæslunni barst nýverið gervitunglamynd frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu, EMSA. Myndin gaf til kynna að olía væri að koma frá togaranum Beiti TFES en togarinn var að veiðum djúpt austur af landinu. „Landhelgisgæslan fær gervitunglamyndir reglulega sendar til að greina mengun og skipaumferð í efnahagslögsögunni,“ segir í tilkynningu um málið frá gæslunni.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði að sjálfsögðu samband við áhöfn Beitis til að kanna málið. Áhöfnin kannaðist þó ekki við að hafa dælt neinni olíu í sjóinn og hafði engar skýringar á því hvers vegna kerfin sýndu að mengun væri að koma frá skipinu.
Það svo ekki fyrr en togarinn Vilhelm Þorsteinsson kom að Beiti sem það kom í ljós hvað var í gangi, það var nefnilega ekki allt sem sýndist. Beitir hafði ekki dælt olíu í sjóinn heldur var sprungið hvalshræ fast á perustefni skipsins. „Enginn um borð hafði hugmynd um veru hvalsins á perunni en úr hræinu lak lýsi sem skyldi eftir sig brák,“ segir Landhelgisgæslan.
„Þar með var ráðgátan leyst og laumufarþeginn á perunni var því eftir allt saman ástæða þess að viðvaranir bárust Landhelgisgæslunni. Þetta óvenjulega mál sýnir að fjareftirlit sem þetta er langt á veg komið og er sérlega mikilvægt til að hægt sé að halda uppi virku eftirliti í efnahagslögsögu Íslands.“
Í gervitunglamyndinni sem EMSA sendi Landhelgisgæslunni má sjá rákina sem hvalurinn skyldi eftir sig. Gervitunglayndina má sjá hér fyrir neðan auk vinnumyndar frá EMSA. Rákin endar þegar hvalurinn hefur fallið af perustefninu.