Þetta segir Michael Clarke, prófessor og hernaðarsérfræðingur. Sky News skýrir frá þessu.
Hann sagði að ef Úkraínumenn nái borginni Kherson á sitt vald sé það „stór sigur“. Hann sagði að sigrar Úkraínumanna í Kharkiv séu mikilvægir en ef þeir nái Kherson sé það „mjög þýðingarmikið“.
Kherson er rétt norðan við Krímskaga og er eina stóra úkraínska borgin sem Rússar hafa náð að hertaka. Ef Úkraínumenn ná henni aftur á sitt vald er Krímskagi, sem Rússar hertóku og innlimuðu í rússneska ríkjasambandið 2014, innan skotfæris úkraínsks stórskotaliðs að sögn Clarke. Það gæti gert Rússum ókleift að stunda hernað þaðan.
Sky News segir að merki sjáist um að varnir Rússa í Kherson séu að bresta og að hersveitir þeirra séu að verða uppiskroppa með skotfæri.
Clarke sagði að fréttir, óstaðfestar, hafi borist af því að samið hafi verið um vopnahlé sums staðar við víglínuna og annars staðar hafi rússneskir hermenn gefist upp, sérstaklega í norðurhluta Kherson.
„Rússarnir virðast vera orðnir matarlausir og allslausir. Um leið og þeir verða uppiskroppa með skotfæri, þá eiga þeir engra annarra kosta völ en að gefast upp eða flýja. Þeir geta ekki flúið því þeir komast ekki yfir ána Dnipro,“ sagði hann.
Hann sagðist telja að Úkraínumenn eigi möguleika, þegar vorar, á að reka Rússa frá öllum þeim svæðum sem þeir hafa hernumið síðan í febrúar. „Það myndi vera stór sigur,“ sagði hann.