Þetta kemur fram í umfjöllun vg.no um málið. Segir miðillinn að Pútín eigi þann möguleika að hætta að kalla innrásina „sérstaka hernaðaraðgerð“ og lýsa yfir stríði gegn Úkraínu. Ef hann gerir það getur hann tífaldað fjölda rússneskra hermanna í Úkraínu.
Þar sem Pútín og hans fólk kalla innrásina „sérstaka hernaðaraðgerð“ hafa Rússar ekki úr eins miklu að spila hernaðarlega og ef stríði væri lýst yfir.
Vg segir að rússneski herinn sé með eina milljón hermanna í varaliði sínu og þá geti Pútín í raun sent til Úkraínu ef hann lýsir yfir stríði.
En Pútín hefur ekki viljað lýsa yfir stríði. Það myndi gera að verkum að byrjað verður að senda unga menn úr borgum landsins til Úkraínu og það myndi vekja meira umtal og jafnvel valda óróa í samfélaginu. Fram að þessu hefur uppistaðan í rússneska innrásarliðinu verið sótt til dreifðari byggða Rússlands og í minnihlutahópa.
Það yrði líka erfitt fyrir Pútín að þurfa að útskýra af hverju hann lýsi yfir stríði eftir fyrri yfirlýsingar hans og samstarfsfólks hans um að hin „sérstaka hernaðaraðgerð“ gangi nákvæmlega eftir áætlun og markmiðum hersins verði náð.