Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi, til greiðslu 40 þúsund króna sektar í ríkissjóð og sviptur ökurétti ævilangt. Auk þess er honum gert að greiða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skaðabætur og málskostnað.
Maðurinn var dæmdur fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreið án ökuréttinda og undir áhrifum amfetamíns, og fyrir hylmingu. Auk þess var hann dæmdur fyrir þjófnað á fimm vínflöskum úr verslun ÁTVR í Reykjanesbæ sem hér segir:
25. júlí 2020: Stal flösku af Johnnie Walker Red Label að verðmæti 6.899 kr
31, júlí 2020: Stal flösku af Eldurís að verðmæti 7.840 kr.
29. ágúst 2020: Stal flösku af Johnnie Walker Red Label að verðmæti 4.999 kr.
16. október 2020: Stal flösku að verðmæti Johnnie Walker Red Label að verðmæti 6.899 kr
13. febrúar 2021: Stal flösku af Johnnie Walker Red Label og flösku af Ballantine´s 12 ára samtals að verðmæti 12.949 kr.
Hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Vegna játningar og þeirrar staðreyndar að þjófnaðarbrotin „eru smávægileg“ var sex mánaða fangelsi talið „hæfileg“ refsing.
Í málinu gerði ÁTVR einkaréttarkröfu og krafðist þess að fá skaðabætur þannig að maðurinn greiddi andvirði vínsins auk vaxta og dráttarvaxta. Honum var einnig gert að greiða málskostnað ÁTVR að upphæð 186 þúsund krónur. Má telja nokkuð sérstakt að ríkisstofnun fari svona í hart gegn manni sem ljóst virðist að sé með fíknisjúkdóm.
Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir þjófnað og önnur auðgunarbrot, þetta er í þriðja sinn sem hann gerist sekur um akstur undir áhrifum ávana- eða vímuefna og hefur hann endurtekið rofið skilorð.