fbpx
Þriðjudagur 04.febrúar 2025
Fréttir

Allt á suðupunkti hjá íslenskum kvikmyndaáhugamönnum

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 15. september 2022 13:28

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarna daga hefur mikið gengið á í Facebook-hópi íslenskra kvikmyndaáhugamanna. Vart má skrolla í gegnum færslurnar í hópnum án þess að sjá heiftarleg rifrildi sem snúast í flestum tilfellum um það sama, litarhaft á persónum sem eru ekki til í alvörunni.

Persónan sem hefur valdið hvað mestu fjaðrafoki í hópnum er litla hafmeyjan, það er að segja litla hafmeyjan í nýju leiknu kvikmyndinni frá Disney sem kemur út á næsta ári. Ástæðan fyrir reiði margra í hópnum er sú að leikkonan sem leikur hafmeyjuna, Halle Bailey, er svört. Þessi reiði takmarkast reyndar ekki bara við hóp íslenskra kvikmyndaáhugamanna því einstaklingar víða um heim hafa að undanförnu verið við það að missa vitið vegna nýju hafmeyjunnar sem og öðrum yfirnáttúrulegum verum sem leiknar eru af svörtu fólki. Að sama bragði hafa aðrir stigið fram í umræðunni og kallað þessa gagnrýni fordómafulla og segja skoðanir þeirra sem ganga harðast fram í gagnrýninni vera rasisma.

Þeir sem sagðir eru rasistar kæra sig þó ekki um að vera kallaðir slíkt og verja sig með þeim rökum að þeir séu í raun bara á móti því að hlutverk sem áður voru leikin af hvítu fólki, eða í tilfelli hafmeyjunnar litlu – teiknað hvítt- séu nú leikin af fólki sem er ekki hvítt. „Ég dæmi ekki fólk eftir húðlit eða kyni,“ segir til að mynda einn íslenskur kvikmyndaáhugamaður. Sami kvikmyndaáhugamaður kemur svo með lykilorðið „en“ og segir að hann dæmi þó þegar kyni eða litarhafti á „elskuðum persónum“ sé breytt.

„Ég veit allavega að ef það yrðu teknar sögupersónur, gervi eða ekta, sem voru af öðrum kynþætti en hvítum og breytt yfir í hvítar persónur yrði allt brjálað,“ segir svo annar meðlimur hópsins. Þeim meðlimi er þó bent á að það hafi verið gert „óteljandi oft“ í gegnum tíðina.

Þrátt fyrir að það virðist við fyrstu sýn vera sem flestir meðlimir hópsins séu á móti því að Bailey leiki hafmeyjuna frægu þá er það öllu heldur hávær minnihluti hópsins. Fjölmargir meðlimir hafa fagnað fjölbreytileikanum og bíða spenntir eftir því að sjá myndina þegar hún kemur út á næsta ári.

Þá hefur verið vakin athygli á myndbandi sem hefur farið eins og eldur í sinu um netheima í hópnum. Í myndbandinu má sjá ungar svartar stúlkur sem eru himinlifandi við það að sjá Bailey í hlutverki hafmeyjunnar. Sá sem deilir myndbandinu í hóp íslenskra kvikmyndaáhugamanna segir kaldhæðinn: „Hvernig var þetta aftur strákar, þessi „woke“ áhrif og aukinn fjölbreytileiki í Hollywood er að eyðileggja allt. Óþolandi!“

„Væri það nógu PC?“

Umræðan um breytt litarhaft á persónum einskorðast ekki bara við litlu hafmeyjuna. Í vikunni var því einnig velt upp að stórstjarnan Idris Elba gæti verið frábær í hlutverki njósnarans James Bond. Það voru þó ekki allir sáttir við það í hópnum, einn meðlimur hópsins segir til dæmis að það væri „woke kjaftæði“ að ráða hann í hlutverkið. „James Bond er hvítur karlmaður Idris getur leikið þjóninn hans,“ segir svo annar meðlimur í hópnum.

Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður Vísis, tók einnig til máls í athugasemdunum og virðist Idris Elba ekki henta í hlutverkið að hans mati. „Njósnari hennar hátignar? Aldeilis klókt. Af hverju ekki bara að láta hann leika titilhlutverkið í myndinni sem er verið að gera um Önnu Frank? Væri það nógu PC?“ segir Jakob Bjarnar, þó ekki sé ljóst hvort það sé raunveruleg skoðun hans eða hvort hann hafi þar slegið á létta strengi í ljósi háværa minnihlutans í hópnum.

Eins og með hafmeyjuna þá er það einnig minnihluti hópsins sem væri ósáttur með Elba í hlutverki njósnarans fræga. Flest í hópnum segja að Elba væri fullkominn í hlutverkið þar sem hann er bæði breskur og séntílmenni. Þó hafa mörg áhyggjur af aldrinum hans og hugsa að hann sé orðinn aðeins of gamall fyrir hlutverkið, en aftur á móti vekur það upp spurninguna hvort að þar séu ekki aldursfordómar á ferðinni – er það ekki?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Héraðsdómur Reykjaness fór ekki að lögum í forsjármáli – Fær skammir í hattinn frá Landsrétti

Héraðsdómur Reykjaness fór ekki að lögum í forsjármáli – Fær skammir í hattinn frá Landsrétti
Fréttir
Í gær

Neyðarástand skapaðist um borð í seglskipi skammt undan landi – Fjölmargt fór úrskeiðis

Neyðarástand skapaðist um borð í seglskipi skammt undan landi – Fjölmargt fór úrskeiðis
Fréttir
Í gær

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm
Fréttir
Í gær

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum