Átján ára þroskaskertur drengur varð fyrir fólskulegri árás í undirgöngunum við Sprengisand í Reykjavík. RÚV greinir frá en Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfesti árásina við fréttastofu.
Í frétt RÚV kemur fram að drengurinn hafi verið á leið á íþróttaæfingu á hjóli þegar ráðist var á hann og reynt að stela af honum farartækinu. Í kjölfarið var drengurinn stunginn þrisvar sinnum með hníf. Hann undirgekkst aðgerð á gjörgæslu en er þó ekki í lífshættu. Árásarmaðurinn var handtekinn og úrskurðaður í síbrotagæslu til 12. október.