Hilmar Örn Kolbeins er látinn, 45 ára að aldri. Hilmar var fjölfatlaður maður sem hefur undanfarin ár staðið í harðri baráttu fyrir þeim rétti sínum að geta búið heima hjá sér við mannsæmandi aðstæður.
Barátta hans vakti mikla athygli í desember þegar Hilmar steig fram og greindi frá því að hann væri fastur á elliheimili þar sem Reykjavíkurborg hafi neitað honum um heimaþjónustu sem hann hafði áður notið. Hilmar greindi frá því í samtali við Vísi að barátta hans hafi tekið sinn toll og hann teldi sig hafa elst um tuttugu ár.
Benti hann á að hann væri ungur og ætti ekkert erindi á elliheimili, en hann hafði verið sendur á elliheimilið Hrafnistu. Þar áður hafði hann verið fastur á Landspítala í hálft ár.
Hann fékk í kjölfar þess að hann steig fram þjónustu samning um heimahjúkrun frá borginni til þriggja mánaða. Í mars steig Hilmar aftur fram þar sem borgin hafði ekki veitt honum nein svör um hvort sá samningur yrði framlengdur og óttaðist hann að enda aftur inn á Landspítalanum og vera þar fastur.
Við höfum ekkert heyrt frá borginni um slíka ákvörðun þrátt fyrir ítrekaðar tölvupóstsendingar og símhringingar þá hefur það engan árangur borið,“ segir hann í samtali við fréttastofu Stöðvar 2. Á þeim tíma hafði Hilmar ráðið sig til vinnu sem hann sá ekki fram á að geta sinnt ef hann yrði lagður inn á Landspítala.
Í maí steig Hilmar svo enn einu sinni fram og lýsti því að hafi ekki fengið viðunandi þjónustu frá borginni svo mánuðum skipti. Meðal annars hafði hann ekki verið baðaður frá því í febrúar. Við það tilefni sagði Flóki Ásgeirsson, lögmaður Hilmars, í samtali við Fréttablaðið að meðferðin sem Hilmar hafi sætt af hálfu borginnar hafi verið slík að til greina komi að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu málsins.
Þá hafði hann frá því í apríl sofið sitjandi í hjólastól sínum vegna skorts á þjónustu frá borginni og þurfti að leita á bráðamóttöku Landspítalans til að fá viðeigandi aðstoð. Sagði Hilmar að borgin bæri fyrir sig undirmönnum og erfiðleika við ráðningar.
Lögmaður hans hafði þá sent erindi til starfsmanna borgarinnar sem og réttindagæslumanns fatlaðs fólks og í kjölfarið var Hilmari lofað lágmarksþjónustu. Í erindinu tók lögmaðurinn fram að aðstæður Hilmars fælu í sér vanvirðandi meðferð og brot á stjórnarskrá.
Hilmar lést mánudaginn 5. september á gjörgæsludeild Landspítalans. Útför hans fer fram nú á fimmtudag.
Sjá einnig: Hilmar:„Ég var skilinn eftir aleinn yfir helgina“