Ein af áætlununum er mjög áhugaverð út frá evrópskum sjónarhóli. Hún gengur út á að bandaríkjastjórn vill fá bandaríska framleiðendur til að auka útflutning á fljótandi gasi til Evrópu. Washington Post skýrir frá þessu.
Mikið hefur verið fjallað um slæmt útlit orkumála í Evrópu að undanförnu og áhyggjur af stöðu efnahagsmála í álfunni vegna hugsanlegs orkuskorts og hás orkuverðs. Sérstakar áhyggjur eru af þýsku efnahagslífi en þýskt efnahagslíf er aðalmótor evrópsks efnahagslífs.
Janet L. Yellen, fjármálaráðherra, sagði nýlega að Bandaríkjastjórn hafi áhyggjur af slæmum efnahagshorfum í Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu. Hún sagði að Bandaríkjastjórn muni að sjálfsögðu gera allt sem hún getur til að hjálpa Evrópu með gas.
Á síðustu mánuðum hafa Bandaríkin tvöfaldað útflutning sinn á fljótandi gasi til Evrópu og er hann nú um 70% af gasútflutningi landsins. En sá vandi steðjar að að Evrópuríki hafa ekki getu til að taka á móti öllu því gasi sem hægt er að fá frá Bandaríkjunum. Ástæðan er að það þarf að geyma það í sérstökum geymslum og þær eru ekki fyrir hendi.