Karlmaður hefur verið ákærður fyrir hrottalegt ofbeldi í nánu sambandi fyrir að hafa endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð eiginkonu sinnar.
Hafi hann í apríl veist að eiginkonu sinni með ofbeldi og ólögmætri nauðung þar sem hann. þrýsti henni að bílhurð, togaði í kjól hennar, klóraði á bringu og náði þannig af henni kortaveski og farsíma. Eftir að eiginkonan yfirgaf bifreiðina reyndi maðurinn að toga og ýta henni aftur inn með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og áverka á hálsi og brjóstkassa sem og bakverki.
Síðan hafi hann í maí veist að henni með hótunum, ofbeldi og ólögmætri nauðung og nauðgað eiginkonu sinni á malarsvæði í Reykjavík. Í ákæru segir að þetta hafi verið gert á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt. Maðurinn hafi ógnað eiginkonu sinni með hníf, sest yfir hana, lagt bílsæti niður og skipað henni að klæða sig úr að neðan. Hann hafi hótað að setja fíkniefni upp í leggöngin á henni og skera úr henni augun auk þess sem hann hafi hótað að skaða sjálfan sig. Maðurinn hafi því næst nauðgað konu sinni.
Eins er manninum gert að sök að hafa framið eignaspjöll á bíl konu sinnar. Hann hafi spennt upp hurðar á bílnum og þannig eyðilagt þær.
Samhliða ofangreindu er maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa ávana- og fíkniefna sem og þrjár líkamsárásir.
Hafi hann ráðist gegn þremur mönnum í apríl á þessu ári. Einn hafi hann slegið ítrekað í höfuðið, annan með krepptum hnefa í andlit og þann þriðja hafi hann kastað slökkvitæki í áttina að og bitið í bakið. Hlutu allir þrír árásarþolar minniháttar áverka.
Eiginkona mannsins gerir kröfu um miskabætur að fjárhæð 4,5 milljónum.