Eiganda sjoppunnar Prinsins í Hraunbæ mætti furðuleg sjón í morgun þegar hann mætti til vinnu. Þar hafði óprúttinn aðili brotist inn sem er svo sem ekki óheyrt þar á bæjum en um er að ræða fimmta innbrotið á þessu ári. Hins vegar var það aðferðin sem innbrotsaðilinn beitti sem vakti furðuna.
„Þetta er bara eitt það skrítnasta sem ég hef lent í sko,“ segir Guðjón Jónasson eigandi Prinsins í samtali við blaðamann. „Þetta er í fimmta skiptið sem það er brotist inn á einu ári og þeir hafa farið ýmsar leiðir en þetta er það skrítnasta sem ég hef séð og þegar lögreglan kom – þeir hristu bara hausinn, þeir höfðu aldrei séð svona.“
Innbrotsþjófurinn virðist hafa fengið innblástur úr kvikmyndunum Mission Impossible með Tom Cruise þar sem hann hafði ákveðið að brjótast inn ofan frá.
„Innbrotsþjófurinn greinilega fer upp á þak. Sagar bút úr þakinu, tekur einangrunina frá og allt og lætur sig síga niður með svona „sig búnað“ ég veit ekki hvað þetta heitir, en þetta er eins og klifrarar setja utan um lærin á sér, og svo lætur hann sig síga niður.“
Innbrotsþjófurinn reyndi því næst að spenna upp einn af þremur byssuskápunum sem eru í sjoppunni og geyma sígarettur. Eitthvað gekk honum þó verr að komast inn í skápana heldur en honum hafði gengið að komast inn í sjoppuna.
„Hann reynir að spenna upp annan þeirra, nær því ekki, þá hoppar hann yfir afgreiðsluborðið, hleypur að hurðinni og reynir að opna hana. En hún er læst með lykli svo þú getur ekkert bara opnað hana. Svo hann brýtur sér leið í gegn.“
Á hurðinni var afar lítið gat sem þjófurinn hefur brotið á glerið, og einhvern veginn tókst þjófnum að koma sér í gegn. Guðjón segir að það sé út af fyrir sig furðulegur hluti af þessu líka.
„Þetta er pinkulítið gat og hann einhvern veginn treður sér í gegn. Síðan er eins og hann festist aðeins í miðjunni og þá fara bara lappirnar upp í loft og hann einhvern veginn lekur svo út um hurðina. Þetta er galnasta atriði sem við höfum lent í“
Guðjón segir að þetta hafi verið frumlegasta innbrots-aðferðin til þessa. Eins og áður segir er þetta í fimmta sinn sem brotist er inn í sjoppuna á einu ári. Tveir innbrotsþrjótanna fóru inn baka til og þurfti Guðjón á endanum að bora þá hurð fasta. Síðan hafi einn spennt hurðina að framan upp og sá fjórði hafi farið í gegnum gat á glerinu, líkt og þessi í nótt sem notaði þó gat í hurðinni til að komast út.
Tveir þjófanna hafi reynt að komast í afgreiðslukassann óafvitandi að engir peningar eru geymdir í sjoppunni yfir nótt. Því hafi flestir þrjótarnir komið sér undan með skottið milli lappanna og haft lítið upp úr brotastarfsemi sinni.
„Ég held bara í fyrsta innbrotinu voru teknir einhverjir fjórir sígarettupakkar annars hefur ekkert verið tekið.“
Guðjón segist eiga erfitt að ímynda sér hvers konar þjófur notist við slíkar aðferðir sem beitt var í nótt. Þetta hafi verið einstaklega fagmannlega gert, þó að árangurinn hafi verið enginn.