Í samtali við KNR sagðist hún hafa haft áhyggjur af heilsufari dóttur sinnar um langa hríð því hún hafi fitnað og magi hennar hafi verið mjög þaninn.
Dóttirin getur hvorki talað né gengið, hún skríður og notar bleiu.
Maibritt sneri sér til stjórnenda heimilisins til að fá upplýsingar um hvað væri að dóttur hennar en lítið var um skýringar.
Það var ekki fyrr en að morgni 2. september sem hún komst að því hvað var að henni en þá var dóttirin lögð inn á sjúkrahús í skyndingu. Engar upplýsingar var að fá hjá heimilinu um ástæðu innlagnarinnar og því fór Maibritt á sjúkrahúsið.
„En ég fór á sjúkrahúsið og hljóp að stofunni hennar þegar ég sá möguleika til þess. Á leið að stofunni mætti ég lækni sem spurði: „Er þetta amma?“. Ég svaraði: „Nei, ég er mamma og vil gjarnan komast inn til dóttur minnar núna!“ En læknirinn hélt áfram að kalla mig ömmu. Það var þá sem ég komst að því að dóttir mín hafði alið dreng,“ sagði hún í samtali við KNR.
„Dóttir mín er ekki fær um að verja sig. Hún er ekki fær um að segja mér hvernig henni líður og hún er ekki fær um að segja mér að hún hafi verið misnotuð og börnuð,“ sagði hún.
Talsmaður lögreglunnar staðfesti að kæra hafi borist og að málið sé nú til rannsóknar.