Einkaritari drottningarinnar, Sir Christopher Geidt, mun tilkynna forsætisráðherra Bretlands um andlátið áður en fjölmiðlum verður tilkynnt um það. Geidt mun því næst tilkynna um andlát drottningarinnar til stjórnvalda í þeim 15 ríkjum og 36 Samveldisríkjum þar sem drottningin er þjóðhöfðingi.
BBC hefur fram að þessu fengið að vita af andláti konungborinna á undan öðrum fjölmiðlum en nú er landslagið í fjölmiðlun gjörbreytt frá því sem áður var og núna er venjan að tilkynningar um stóra atburði á borð við andlát þjóðhöfðingja séu sendar til allra fjölmiðla heimsins í gegnum fréttaveitur eins og Press Association.
Ef andlátið á sér aðdraganda, til dæmis ef drottningin hefur verið veik, munu stærstu sjónvarpsstöðvar Bretlandseyja, þar á meðal allar rásir BBC, rjúfa útsendingu og segja frá andlátinu. Ekki er óhugsandi að margar sjónvarpsstöðvar muni samtengjast BBC og sýna útsendingu ríkisstöðvarinnar um málið. Sumar sjónvarpsstöðvar æfa upplestur tilkynningar um andlátið ef það á sér aðdraganda. Þá verða minningarorð og myndefni tilbúið til sýningar.
Hvort sem andlátið á sér aðdraganda eða verður skyndilegt þá munu flugstjórar áætlunarflugvéla tilkynna farþegum um andlátið.
Í umfjöllun Independent um málið kemur fram að líklega verði flestum vinnustöðum lokað eftir að tilkynnt hefur verið um andlátið og starfsfólk sent heim. Því næst tekur við 12 daga sorgartímabil og lík drottningarinnar verður flutt í Buckingham Palace. Undirbúningur útfararinnar verður í fullum gangi en erkibiskupinn af Canterbury mun jarðsetja. Flaggað verður í hálfa stöng um allt land.
Á útfarardeginum sjálfum verður breski hlutabréfamarkaðurinn lokaður sem og flestir bankar. Dagurinn verður almennur frídagur sem og krýningardagur Karls prins.
Drottningin verður væntanlega jarðsett í St George‘s Chapel í Windsor Castle en þar eru bæði móðir hennar og faðir jarðsett.
Karl prins er næstur í erfðaröðinni og verður því konungur við andlát drottningarinnar. Hann mun ávarpa þjóðina að kvöldi dánardagsins. Þegar hann verður krýndur konungur getur hann ákveðið að notast við eitthvert af skírnarnöfnum sínum sem konungur en auk þess að heita Karl ber hann nöfnin Arthur, Philip og Georg. Hann getur því valið eitthvert þessara nafna sem konungsnafn sitt. Ef hann ákveður að halda sig við Karls nafnið verður hann Karl III (Charles III). Líklegt verður að teljast að Vilhjálmur sonur hans, sem er næst á eftir Karli í erfðaröðinni, verði þá prins af Wales.