fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Tekist á um arðgreiðslur einkarekinna leikskóla – „Er verið að reka leikskóla til að græða?“

Erla Hlynsdóttir
Fimmtudaginn 8. september 2022 16:18

Mynd úr safni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um einkarekna leik- og grunnskóla vekur upp margar spurningar um eftirlit með skólastarfi og meðferð á opinberu fé,“ segir í bókun borgarfulltrúa Vinstri grænna sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar á þriðjudag þar sem skýrslan var sérstaklega til umfjöllunar.

Eins og DV hefur fjallað um hafa nokkrir einkareknu leikskólanna greitt sér út arð, og einn þeirra greiddi út arð þrátt fyrir að vera með neikvætt eigið fé og stefna í gjaldþrot.

Sjá einnig: Leikskólinn Vinaminni greiddi út 65 milljónir í arðgreiðslur – Sælukot keypti íbúðarhús á Einarsnesi

Í skýrslunni kemur fram að engar reglur gilda um arðgreiðslur úr rekstri einkarekinna leikskóla.

Þá segir þar að „sviksemisáhætta“ sé nokkur en einnig um „orðsporsáhættu“ fyrir Reykjavíkurborg „ef rekstur sjálfstætt starfandi skóla samræmist ekki meðferð á opinberu fé.“

Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins lögðu einnig fram bókanir á fundinum þar sem arðgreiðslur voru gagnrýndar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu hins vegar í sinni bókun: „Með hliðsjón af eðli lítils atvinnurekstrar af þessu tagi getur það átt við málefnaleg rök að styðjast að stjórnendur afli sér tekna í formi arðs. Fyllsta ástæða er til að standa vörð um fjölbreytt rekstrarform leikskóla og engin þörf á að gera það tortryggilegt að eigendur hagi rekstrinum að þessu leyti með þeim hætti sem þeir telja heppilegast.“

Sjá einnig: Trausti gagnrýnir tugmilljóna arðgreiðslur einkarekinna leikskóla – „Peningur sem ætti að nýtast börnum er sogaður út“

Í bókun Sósíalistaflokksins segir að sósíalistum þyki óboðlegt að sjálfstætt reknir leikskólar með samninga við borgina hafi heimildir til að greiða sér út arð án skilyrða.

„Meginhlutverk barna hjá þessum skólum virðist vera að skila eigendum sjálfstætt rekinna leikskóla sem mestum arði. Með slíku fyrirkomulagi, eru börnin sett í annað sæti, ef skóli hefur það að leiðarljósi að skila arði. Leikskólastarf á fyrst og fremst að byggjast á þörfum barnanna. Það er ekki hægt að hámarka arðgreiðslur og halda bestu mögulegum gæðum á leikskólastarfi samtímis. Reykjavíkurborg þarf að ákveða hvort þeirra hún telur vera forgang,“ segir í bókun Sósíalistaflokksins.

Sjá einnig: Árelía ósátt við arðgreiðslur einkarekinna leikskóla – „Áminning um að við þurfum að halda vöku okkar og gera betur“

Vinstri græn minntu á þá stefnu sína að menntakerfið skuli vera í samfélagslegum rekstri, greitt úr sameiginlegum sjóðum og notendum sínum að endurgjaldslausu. „Það er skoðun Vinstri grænna að hagnaðardrifin félög skuli ekki á nokkurn hátt koma að rekstri þess. Einkavæðingardekur og pilsfaldakapítalismi er aldrei til bóta,“ sagði í bókun borgarfulltrúa Vinstri grænna.

Sjá einnig: Reykjavíkurborg sefur á verðinum – Leikskólinn Sælukot minni á „fangabúðir“ – Rekinn af samtökum sem hafa„verið bendluð við hryðjuverk“

Flokkur fólksins harmar niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla og lét bóka það á fundinum. „Þetta er skelfileg niðurstaða og við henni þarf að bregðast strax. Flokkur fólksins getur ekki stutt arðgreiðslur án eftirlits og skilyrða. Það er algjörlega ólíðandi. Er verið að reka leikskóla til að græða? Við verðum að spyrja okkur að því hvort skattfé Reykvíkinga sé best varið í arðgreiðslur til einkaaðila,“ segir í bókun Flokks fólksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“