Þetta sagði hann þegar hann ávarpaði árlega efnahagsráðstefnu í Vladivostok. Hann sagði að Rússland hafi ekki misst neitt í alþjóðlegri rimmu við Bandaríkin vegna Úkraínu.
Hann sagði hina „sérstöku hernaðaraðgerð“ vera vendipunkt í sögunni. Vendipunkt þar sem Rússland hafi loksins sigrast á þeirri niðurlægingu sem landið varð fyrir í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna 1991.
Hann reyndi að leggja áherslu á mikilvægi nýrrar stefnu Rússlands hvað varðar aukið samstarf við Asíuríki og sagði að Vesturlönd dragist sífellt meira aftur úr en Asía sé framtíðin.
Þegar hann var spurður hvort Rússland hafi tapað einhverju á stríðinu við Úkraínu sagði Pútín að Rússland hafi sigrað og muni standa sterkara á eftir og ekkert muni geta hindrað landið í því sem það vill gera í framtíðinni. „Við höfum ekki tapað neinu og við munum ekki tapa neinu. Hvað varðar það sem við höfum unnið þá get ég sagt að það mikilvægasta er að fullveldi okkar hefur styrkst. Það er óhjákvæmileg afleiðing þess sem er að gerast núna,“ sagði hann.