fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Skákdramað í St. Louis: Spjótin beinast að heimsmeistaranum Carlsen eftir tilfinningaríkt viðtal við meintan svindlara

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 7. september 2022 13:34

Hans Niemann og Magnus Carlsen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Spjótin eru farin að beinast að Magnus Carlsen, ríkjandi heimsmeistara í skák, eftir tilfinningaríkt viðtal við bandaríska stórmeistarann Hans Niemann fór í loftið seint í gærkvöldi. Eins og frægt varð lagði Niemann Carlsen að velli í Sinquefield-ofurmótinu í St. Louis á sunnudaginn og síðan fór allt á hliðina eftir að Carlsen mætti ekki til leiks í næstu umferð og tilkynnti í Twitter-færslu að hann væri hættur í mótinu.

Það var ekki síst myndskeiðið sem Carlsen birti í færslunni sem vakti gríðarlega athygli en þar er ýjað að því að ef hann segi frá raunverulegri ástæðu brotthvarfsins þá lendi hann í vandræðum. Nokkrum mínútum síðar voru sögusagnir um að Carslen grunaði Niemann um svindl komnar út um allt á samfélagsmiðlum og er engu logið með það að alþjóða skáksamfélagið hafi nötrað vegna málsins.

Sjá einnig: Heimsmeistarinn Carlsen hætti í miðju móti og hávær orðrómur um svindl

Undraverðar framfarir

Hans Niemann er 19 ára bandarískur stórmeistari sem hefur skotist upp á stjörnuhimininn undanfarið ár. Fyrir tveimur árum var ekkert sem benti til þess að hann gæti skipað sér í hóp sterkustu skákmanna heims en undanfarið ár hafa framfarir hans verið ótrúlegar og skyndilega var hann farinn að velgja sterkustu skákmönnum heims undir uggum. Í dag er hann í 39. sæti yfir sterkustu skákmenn eins og er á hraðferð upp heimslistann.

Slíkar framfarir vekja alltaf ákveðna tortryggni, sennilega í öllum íþróttum, og það sem hefur skemmt sérstaklega fyrir Niemann er orðrómur þess efnis að hann hafi gerst sekur um svindl á Chess.com – stærsta skákþjóni veraldar þar sem tugmilljónir manna tefla á degi hverjum, áhugafólk sem og bestu skákmenn heims.

Sá orðrómur hefur fylgt Niemann lengi og í bland við ótrúlegar framfarir hans þá hefur skapast mikil tortryggni í hans garð meðal bestu skákmanna heims. Sigurinn gegn Carlsen, sem var ótrúlega sannfærandi, rauf 53 skáka taplausa hrinu heimsmeistarans og var greinilega kornið sem fyllti mælinn hjá Carlsen og nokkrum öðrum heimsklassa skákmönnum sem virðast sannfærðir um að Niemann hafi haft rangt við.

Engar sannanir hafa þó verið lagðar fram um hvernig Niemann eigi að hafa svindlað og þrátt fyrir stórhertar öryggiskröfur á skákstað, þar sem fylgst er með hverju skrefi hans, hefur hann haldið áfram að tefla ótrúlega vel þrátt fyrir að pressan á honum sé gríðarleg.

Opnaði sig upp á gátt í sögulegu viðtali

Í gær mætti Niemann síðan í viðtal á heimasíðu Sinquefield-mótsins, eins og vant er eftir hverja skák, og þar opnaði hann sig loks um stóra svindlmálið. Opna sig er líklega heldur vægt til orða tekið því Niemann skrúfaði frá öllum flóðgáttum í viðtali sem verður lengi í minnum haft meðal skákáhugafólks.

Í stuttu máli viðurkenndi Niemann að hafa verið staðinn að verkum við að svindla á Chess.com. Hann sagði að það hefði fyrst gerst þegar hann var 12 ára gamall að sprella með vini sínum en síðan hafi hann aftur látið freistast fjórum árum síðar, þá 16 ára gamall þegar hann rak vinsæla streymissíðu þar sem hann tefldi við sterka skákmenn á netþjóninum og lýsti hugsanaferli sínu samtímis. Hann sagði að um eina skák hefði verið að ræða og útaf öflugu eftirlitskerfi Chess.com var hann strax staðinn að verki. Um stærstu mistök lífs hans hafi verið að ræða og hann sé fullur eftirsjár:

„Ég er stoltur af sjálfum mér fyrir að hafa lært af mistökum mínum og nú hef ég lagt allt mitt í skákina. Ég hef fórnað öllu fyrir skákina og ég geri allt sem ég get til að bæta mig,“ sagði Niemann.

Hann lýsti svo því hvernig hann hafi síðustu tvö árin stúderað á hverjum degi allt að 12 klukkustundir á dag og að hann færi helst ekki út úr húsi. Hann pantaði sér mat í heimsendingu tvisvar á dag en að öðru leyti þá hafi hann varla haft almennileg samskipti við fólk þessi tvö ár.

Hann upplýsti svo um að í kjölfar skandalsins í þessari viku hafi Chess.com lokað skyndilega reikningi hans á netþjóninum sem er mikið inngrip í líf einhvers sem hefur lifibrauð sitt af skák. Niemann lét þó ósagt að Carlsen sjálfur er verðandi hluthafi í Chess.com en á dögunum var tilkynnt um kaup fyrirtækisins á PlayMagnus-fyrirtækinu, þar sem samkeppnisaðilinn Chess24 er meðal eigna, sem Carlsen á stóran hlut í.  Heimsmeistarinn hefur því mikil ítök hjá Chess.com.

Viðtalið við Niemann hefur vakið mikla athygli og hefur rétt hans hlut mikið. Hann lagði spilin einfaldlega á borðið og greinilegt er á samfélagsmiðlum að flestir eru á því að Magnus Carlsen eigi nú næsta leik. Hann hætti í fyrsta skipti á ferlinum í skákmóti, og skapaði sannkallaðan samfélagsmiðlastorm sem vegið hefur hressilega að mannorði Niemann. Engar sannanir hafi verið lagðar fram og nú eru þær raddir sífellt að verða háværi að Carlsen hafi hegðað sér eins og tapsár prímadonna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Allt stefnir í að Brynjar sé að fá nýja vinnu – Með minni menntun en meiri reynslu

Allt stefnir í að Brynjar sé að fá nýja vinnu – Með minni menntun en meiri reynslu
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm

Sögð hafa stolið af Sjúkratryggingum Íslands í ellefu ár – Móðir og tveir synir hennar fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Víkingur Heiðar vann til Grammy-verðlauna

Víkingur Heiðar vann til Grammy-verðlauna
Fréttir
Í gær

Senn dregur til tíðinda í kapphlaupinu um „stærsta fjársjóð mannkyns“

Senn dregur til tíðinda í kapphlaupinu um „stærsta fjársjóð mannkyns“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sögð ekki hafa áttað sig á eðli parkets

Sögð ekki hafa áttað sig á eðli parkets
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir

Mildi að ekki fór enn verr eftir að klakastykki stórskemmdi vinnubíl í Grafarvogi – Myndir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“